Erlent

Ofbeldið í Darfur heldur enn áfram

Kofi Annan við ræðuhöld í dag.
Kofi Annan við ræðuhöld í dag. MYND/AP

Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, opnaði í Eþíópíu í dag alþjóðlega ráðstefnu um hvernig hægt er að leysa ástandið í Darfur-héraði í Súdan. Þar mun hann meðal annars mæla fyrir því að búið til verði sameinað friðargæslulið frá Sameinuðu þjóðunum og Afríkusambandinu.

Annan skoraði á ráðamenn í Khartúm að taka tilboðinu en þeir neita að leyfa friðargæsluliði sem væri bara frá Sameinuðu þjóðunum að taka við af friðargæsluliði Afríkusambandsins, en umboð þeirra til þess að vera í Súdan rennur út þann 31. desember næstkomandi.

Alls hafa um 200.000 manns látið lífið vegna átakanna í Darfur-héraði og um 2.5 milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín. Bara í gær voru um 50 manns drepin af arabískum vígamönnum og sveitum þeirra en þær ganga gjarnan undir nafninu Janjaweed. Ráðamenn í Súdan segja vandamálið ekki vera stórt og eingöngu ýkt til þess að valda þeim pólitískum erfiðleikum.

Ofbeldið í Darfur hefur undanfarið verið að breiðast út til nágrannaríkjanna Tsjad og Mið-Afríku Lýðveldisins en Sameinuðu þjóðirnar eru að skoða möguleika á því að koma upp friðargæsluliði í þeim löndum.

Breska dagblaðið Times skýrir frá þessu á vefsíðu sinni í dag.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×