Erlent

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktar um Úganda

Jan Egeland (t.h.), sérstakur erindreki SÞ hittir Joseph Kony (t.v.) til þess að reyna að semja um lausn barna og kvenna.
Jan Egeland (t.h.), sérstakur erindreki SÞ hittir Joseph Kony (t.v.) til þess að reyna að semja um lausn barna og kvenna. MYND/AP

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti í kvöld ályktun þar sem skorað er á uppreisnarher drottins í Úganda að sleppa úr haldi öllum þeim börnum og konum sem þeir hafa rænt á síðustu tveimur áratugum.

Ályktunin var samþykkt af öllum meðlimum öryggisráðsins og hvatti bæði uppreisnarherinn og stjórnvöld í Úganda til þess að binda enda á borgarastyrjöldina sem hefur verið í landinu síðastliðin 20 ár. Skrifuðu deiluaðilar undir vopnahlé fyrr í mánuðinum og ýtir það undir vonir manna að loks muni friðarsamkomulag nást og friður verða í norðurhluta Úganda.

Uppreisnarher drottins berst fyrir því að stofna ríki í Úganda á grundvelli boðorðanna tíu. Þeir hafa hinsvegar orðið frægastir fyrir ódæðisverk sín en þeir hafa iðulega drepið óbreytta borgara, limlest þá og síðan rænt konum og börnum. Konurnar verða síðan kynlífsþrælar og börnin hermenn. Leiðtogar hópsins halda því þó fram að þeir hafi aldrei gert neitt slíkt.

Ályktunin kvað einnig á um að nauðsynlegt væri að draga þá sem ábyrgir eru fyrir dómstóla og er þetta í fyrsta sinn sem að Sameinuðu þjóðirnar ítreka nauðsyn þess. Alþjóðadómstóllinn í Haag hefur gefið út kærur á hendur fimm leiðtoga uppreisnarhers drottins en þeir segja að þeir muni ekki samþykkja neitt varanlegt friðarsamkomulag fyrr en hætt verði við þær kærur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×