Innlent

Eftirlitslaus lofthelgi ekki veikasti hlekkurinn

Tollstjórinn í Reykjavík segir eftirlitslausa lofthelgi ekki veikasta hlekkinn í smygleftirliti Íslendinga, vanræksla ratsjárstöðvanna bjóði ekki upp á neina möguleika sem ekki hafi verið fyrir. Flugmálastjóri sagði í fréttum NFS í gær að eftir að Bandaríkjaher hætti að vinna úr upplýsingum frá ratsjárstöðvum sé greið leið fyrir smyglara að fljúga óséðir inn í lofthelgi Íslands með ólöglegan varning.

Snorri Olsen, tollstjóri í Reykjavík, segir þá sem á annað borð séu að smygla eiturlyfjum eða öðrum ólöglegum varningi til landsins yfirleitt vera útsjónarsama og vakandi fyrir nýjum leiðum til að flytja inn til landsins. Hann segist ekki vita til þess að neinn hafi reynt að smygla eiturlyfjum til landsins með því að lenda á litlum eftirlitslausum flugvelli og segir það ekki endilega auðveldasta valkostinn eða aðgengilegasta. Aðspurður um hver sé þá veikasti hlekkurinn í vörnum landsins vill hann ekki nefna það til að hvetja ekki fólk til neins eða vekja upp hugmyndir, af nógu sé að taka fyrir.

Hann segir æskilegt að Flugmálastjórn eða einhverjum öðrum hentugum aðila sé gert kleift að vinna áfram úr upplýsingum frá ratsjárstöðvum til að sporna við ólöglegum innflutningi fólks eða varnings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×