Skoðun

Að velja siglingaleiðir

Af fréttaflutningi síðustu daga hefur mátt álykta að við val á siglingaleiðum skipa fyrir suðvesturhorn landsins sé aðeins til einn sannleikur, í formi skýrslu Det Norske Veritas frá því í maí 1999.

Kaupskipaútgerðin tók þátt í starfi ráðherraskipaðrar nefndar á árunum 1998-2000. Nefndin hafði skv. skipunarbréfi það hlutverk „að móta reglur um tilkynningaskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu“.

Samt fór það svo að aðalverkefni nefndarinnar sem tekist var hart á um varð um val á tveimur siglingaleiðum fyrir kaupskip við suðvestanvert landið á grundvelli niðurstaðna skýrslu Det Norske Veritas. Fulltrúar kaupskipaútgerðarinnar voru ekki tilbúnir að samþykkja einhliða framlagða skýrslu sem einu réttu niðurstöðuna um öryggi tveggja siglingaleiða á forsendum sem þeir voru ekki sáttir við. Nefndin lauk störfum árið 2000 og var niðurstaðan sú að málið skyldi tekið upp aftur þegar rannsóknir á öllum þáttum málsins hefðu verið lagðar fram.

Síðan eru liðin sjö ár án þess að mikið hafi farið fyrir málinu. Nú ber svo við að samgönguráðuneytið hefur skipað nefnd sem ber heitið „nefnd um neyðarhafnir“ og skipunarbréfið er dagsett 29. nóv. 2006. Nefndin hefur fimm hlutverk og er eitt þeirra „að gera tillögu að skipulagi skipaumferðar, t.d. afmörkun siglingaleiða og/eða takmörkun á siglingum skipa sem flytja hættulegan varning í nánd við landið.“ Nú er nefndin hrein embættismannanefnd án þátttöku kaupskipaútgerðarinnar.

Getur verið að það sé eitthvað athugavert við þessa stjórnsýslu og að það sé ástæða til að við gerum athugasemdir við hana? Viljum við fela ríkisstofnunum einum að taka ákvarðanir á forsendum sem þær sjálfar gefa sér án þátttöku þeirra sem málið snertir beint? SVÞ gera athugasemdir við slík vinnubrögð varðandi þetta mál og mörg önnur. Það er grundvallaratriði við setningu laga og reglugerða að þeir sem málið snertir fái aðkomu að því á vinnslustigi. Það kemur kaupskipaútgerðinni við þegar ákvarða á eina rétta siglingaleið fyrir suðvestan land og því gera SVÞ þá kröfu til samgönguráðuneytisins að þau fái að tilnefna fulltrúa í ofangreindri nefnd.

Höfundur er forstöðumaður flutningasviðs SVÞ




Skoðun

Sjá meira


×