Lífið

Bó berst fyrir bættu öryggi á netinu

„Nei, ég hef nú ekki lent í því að fólk hafi efast um hver ég væri en sumir hafa ekki alltaf kveikt á perunni," segir stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson en eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær leikur hann í auglýsingu fyrir Auðkennislykil sem á að tryggja öryggi bankaviðskipta á netinu. Í auglýsingunni er gert út á að þótt menn séu þekktir á þessari eyju skipti það litlu máli á netinu. „Mér finnst þetta gott málefni enda nota ég netið mikið sjálfur. Og það er aldrei nógu mikið gert til að tryggja öryggið þar," segir söngvarinn.

Björgvin kvaðst vera afar sáttur við starfsfólkið frá Filmus og auglýsingastofunni Hvíta húsinu og sagði að tökuliðið hefði verið ákaflega fagmannlegt. Hann hrósaði Björgvin Franz Gíslasyni í hástert en leikarinn bregður sér í líki Bó í auglýsingunni. „Nafni minn er einhver besti skemmtikrafturinn sem við eigum um þessar mundir og ég var ákaflega ánægður þegar ég heyrði að hann hefði verið ráðinn til verksins," segir Björgvin.

Sjálfur hefur stórsöngvarinn gert lítið af því að leika en hefur þó komið fram í kvikmyndum á borð við Djöflaeyjuna og kvikmyndinni Gullsandur. „Að leika hefur alltaf kitlað mig en ég hef ekki gert mikið af því að koma fram í auglýsingum," segir Björgvin, sem mundi þó eftir kaffiauglýsingu frá Ó. Johnson & Kaaber sem birtist fyrir allmörgum árum. Björgvin ruddi þar brautina fyrir íslenska poppara í auglýsingum en þeir eru ófáir tónlistarmennirnir sem hafa fetað í þau spor.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.