Tónlist

Fagrir hljómar

Þjóðlög, ljóðaflokkar og aríur
Fjölbreyttir söngtónleikar verða haldnir í Salnum á morgun.
Þjóðlög, ljóðaflokkar og aríur Fjölbreyttir söngtónleikar verða haldnir í Salnum á morgun. MYND/Vilhelm

Söngkonurnar Xu Wen og Natalía Chow halda söngtónleika í Salnum í Kópavogi á morgun. Með þeim leikur Anna Guðný Guðmunsdóttir á píanó en á efnisskránni eru ljóðaflokkur eftir Mahler og frumflutningur á ljóðaflokki eftir Julian Hewlett, auk íslenskra og erlendra sönglaga og aría.

Xu Wen nam ung að árum kínverskan óperusöng, leiklist, dans og skylmingar við Huangmei-óperuskólann í Anhui-fylki í Kína. Hún hefur sungið aðalhlutverk í fjölmörgum kínverskum óperum og unnið til verðlauna fyrir söng sinn. Hún fluttist til Íslands árið 1989, hóf nám hjá Elísabetu Erlingsdóttur við söngdeild Tónlistarskólans í Reykjavík og stundaði síðar framhaldsnám í London. Xu Wen hefur haldið fjölda einsöngstónleika og sungið víða á opinberum vettvangi og starfar nú jafnframt sem söngkennari við Domus Vox.

Natalía Chow Hewlett ólst upp í Hong Kong og lærði snemma á píanó. Hún lauk 8. stig í píanóleik og einsöng í Hong Kong og hélt síðar til framhaldsnáms í Bretlandi. Að námi loknu var Natalía ráðin sem lektor við Hong Kong International Institute of Music þar sem hún sá um menntun verðandi tónmenntakennara. Á sama tíma stundaði hún framhaldsnám í söng. Natalía fluttist til Íslands árið 1992 og hefur starfað sem söngkona, söngkennari, organisti og kórstjóri, fyrst á Húsavík og síðan á höfuðborgarsvæðinu. Hún hefur til að mynda staðið að stofnun fjögurra kóra, þar á meðal Regnbogakvennakórsins sem er fyrir konur af erlendum uppruna.

Tónleikarnir á morgun hefjast kl. 16.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×