Erlent

Hamas tekur völdin á Gaza

Jónas Haraldsson skrifar

Hamas segist hafa tekið öll völdin á Gaza svæðinu. Seint í gærkvöldi leysti forseti heimastjórnarinnar, Mahmoud Abbas, ríkisstjórnina upp og lýsti yfir neyðarástandi.

Liðsmenn Hamas eru nú með skrifstofur forsetans á sínu valdi. Græn flögg Hamas blöktu á Fatah byggingum og stuðningsmenn Hamas fögnuðu á götum úti.

Mahmoud Abbas sagði að þar sem ríkisstjórnin hefði verið leyst upp yrði nú skipuð bráðabirgðastjórn og brátt boðað til kosninga.

Leiðtogi Hamas og forsætisráðherra ríkisstjórnarinnar, Ismail Haniyeh, hafnaði því og fullyrðir að ríkisstjórn sín muni starfa áfram og koma á lögum og reglu.

Bandaríkin og Ísrael eru að íhuga að útvega neyðarstjórn Abbas fjármuni til þess að styrkja bráðabirgðastjórnina. Háttsettur ísraelskur ríkisstarfsmaður sagði að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, og Abbas muni hittast í Washington í næstu viku til þess ræða hugsanlegar aðgerðir vegna óaldarinnar á Gaza svæðinu. Fjármunirnir sem um ræðir eru skatttekjur heimastjórnarinnar sem Ísraelar hafa hingað til neitað að láta af hendi.

Óttast er að ofbeldið eigi eftir að breiðast út til Vesturbakkans en því svæði stjórnar Fatah. Al-Aksa sveitir Fatah hafa kallað eftir því að allir menn verði kallaðir út og vígbúnir. Þær vilja hefta aðgerðir Hamas liða á Vesturbakkanum og segjast líta á liðsmenn þeirra sem útlaga.

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lýst yfir fullum stuðningi við aðgerðir Abbas.

Bardagarnir hafa staðið yfir síðan á laugardaginn síðastliðinn og fleiri en 100 hafa látið lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×