Viðskipti erlent

Vodafone skrifar undir á Indlandi

Arun Sarin, forstjóri Vodafone og Ravi Ruia, varaformaður stjórnar Essar, takast í hendur eftir að Vodafone skrifaði undir kaup á meirihlutaeign í fjórða stærsta farsímafélagi Indlands.
Arun Sarin, forstjóri Vodafone og Ravi Ruia, varaformaður stjórnar Essar, takast í hendur eftir að Vodafone skrifaði undir kaup á meirihlutaeign í fjórða stærsta farsímafélagi Indlands. Mynd/AFP

Forsvarsmenn breska farsímarisans Vodafone undirrituðu í gær formlegan samning um kaup á 67 prósenta hlut í indverska fjarskiptafélaginu Hutchison Essar. Félagið er fjórða stærsta fjarskiptafélag Indlands og þykir hafa opnað Vodafone dyrnar á einn af mest vaxandi farsímamörkuðum í heimi.

Í samningnum er kveðið á um að félagið muni skipta um nafn og muni eftirleiðis heita Vodafone Essar og verða vörur og öll þjónusta félagsins auglýstar undir merki Vodafone.

Ravi Ruia, varastjórnarformaður Essar, sem fer með 33 prósenta hlut í félaginu, verður eini fulltrúi Essar í stjórn fjarskipafélagsins en hann verður stjórnarformaður Vodafone Essar. Þetta er þvert á væntingar Essar sem upphaflega fór fram á jafna skiptingu í stjórn Vodafone Essar.

Vodafone mun sömuleiðis hafa forkaupsrétt að öllum bréfum félagsins ákveði Essar að losa sig við þau. Fátt bendir hins vegar til þess að Vodafone kaupi Essar út úr félaginu en indversk hlutafélagalög meina erlendum aðilum að eiga meira en 74 prósent í innlendum fjarskiptafélögum.

Breska ríkisútvarpið segir Vodafone stefna að mikilli uppbyggingu á Indlandi og hafi eyrnamerkt tvo milljarða punda, jafnvirði tæpra 262 milljarða íslenskra króna, sérstaklega vegna þessa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×