Skoðun

Fjögur ár

Magnús Már Guðmundsson skrifar
Skömmu eftir miðnætti að íslenskum tíma þann 20. mars 2003 hófst stríð í Írak. Stuðningur Íslands við innrásina var ákveðinn af tveimur mönnum sem sýndi og sýnir ótrúlega vanvirðingu tveggja siðlausra manna gagnvart lýðræði í landinu og um leið þjóð sinni.

Gjörningurinn var framkvæmdur án þess að utanríkismálanefnd Alþingis kæmi saman en skv. 24. grein þingskapa á nefndin að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um „meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“

Einhverjir myndu telja stuðning Íslands við stríð vera meiri háttar utanríkismál. Aðrir ekki. Sífellt fleirum verður ljóst hvaða hörmungar stríðið hefur kallað yfir írösku þjóðina, en ekkert lát virðist vera á óöldinni í landinu. Engu að síður telur Sjálfstæðisflokkurinn ákvörðunina um stuðning íslensku þjóðarinnar við innrás Bandaríkjanna í Írak hafa verið rétta. Forysta Framsóknarflokksins veit ekki í hvorn fótinn hún á að stíga og hefur Jón Sigurðsson farið í nokkra hringi frá því að hann var kjörinn formaður flokksins.

Á sama tíma hefur afstaða Samfylkingarinnar og stjórnarandstöðuflokkanna ætíð legið fyrir. Mánudaginn 19. mars kl. 20 munu hinir staðföstu stríðsandstæðingar efna til baráttusamkomu í Austurbæ. Þar verður innrásinni mótmælt og þess krafist að íslensk stjórnvöld axli ábyrgð vegna sorglegs stuðnings þeirra við hina ólöglegu innrás.

Höfundur er formaður Ungra jafnaðarmanna.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×