Innlent

Sjómanns af strönduðum báti leitað í Vopnafirði

Nú stendur yfir leit að sjómanni sem saknað er eftir að bátur hans fannst mannlaus í stórgrýti í fjöru austan megin í Vopnafirði.

Björgunarsveitarmenn Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Austurlandi eru að byrja að ganga fjörur en myrkur og strekkingsvindur torvelda nokkuð leitarstarf. Þyrla Landhelgisgæslunnar og varðskip eru á leið á strandstað.

Fyrr í kvöld var hafin eftirgrennslan eftir bátnum að beiðni Vaktstöðvar siglinga þar sem ekki náðist fjarskiptasamband við hann. Björgunarskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Sveinbjörn Sveinsson frá Vopnafirði, var kallað út og fann það bátinn klukkan 23:15, mitt á milli Kattárvíkur og Fles út af Kollamúla í Vopnafirði. Léttabát af skipinu gekk nokkuð erfiðlega að komast að bátnum en nokkru eftir miðnætti kom í ljós að strandaði báturinn var mannlaus.

Tíu björgunarsveitir hafa verið boðaðar út til leitar á landi og sjó og verða björgunarskip, vélsleðar og göngufólk notað við hana.

Gert var ráð fyrir að þyrlan yrði komin á staðinn um klukkan 2:30 í nótt, og að fullur þungi yrði settur í leitina við birtingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×