Tónlist

Stórkostlegur heiður

KK tekur á móti heiðursnafnbótinni úr höndum Björgvins Gíslasonar. Halldór Bragason stendur til hliðar.
KK tekur á móti heiðursnafnbótinni úr höndum Björgvins Gíslasonar. Halldór Bragason stendur til hliðar. MYNND/Vilhelm

Tónlistarmaðurinn Kristján Kristjánsson, KK, var kjörinn Blúsmaður ársins við setningu Blúshátíðar í Reykjavík á Hótel Nordica í fyrrakvöld. Það var Blúsfélag Reykjavíkur sem sæmdi KK nafnbótinni. Þeir sem áður hafa hlotið þennan heiður eru Magnús Eiríksson (2004), Björgvin Gíslason (2005) og Andrea Gylfadóttir (2006).

„Það er stórkostlegur heiður að fá að vera með þessum mönnum, Magnúsi Eiríkíks, Björgvini Gísla og síðan Andreu Gylfa. Að fá að sitja með þeim til sætis sem blúsmaður er frábært,“ segir KK. Eftir að hann tók á móti viðurkenningunni tók hann lagið með hljómsveitinni Frakkarnir, þar sem Björgvin Gíslason er einmitt einn meðlima. „Þetta er bandið sem ég er búinn að vera að leita að. Ég spilaði á munnhörpu og söng og Gummi [Guðmundur Pétursson] og Björgvin spiluðu á gítar. Þeir voru svo afslappaðir gagnvart hvor öðrum og voru ekkert í neinum sóló-einvígjum,“ segir hann og hlær.

KK segist ekki hafa átt von á þessum heiðursverðlaunum. „Þetta er mikill heiður sem mér er sýndur og mjög gaman að fá þessa nafnbót. Þetta er gaman á ferilsskrána og maður er bara snortinn, blússnortinn.“

KK hefur árum saman verið í fararbroddi í blústónlist á Íslandi. Á síðasta ári gaf hann út plötuna Blús sem hlaut einróma lof gagnrýnenda en hann vakti fyrst athygli hér á landi með KK-bandinu.

Á meðal vinsælustu laga þeirrar sveitar voru Bein leið og Vegbúinn. Hann segist alla tíð hafa verið mikill blúsari. „Það byrja allir á þessu því þetta er svo þægileg tónlist til þess. Þegar maður fór að hlusta á rokkið fórum við að sjá nöfn eins Robert Johnson og Muddy Waters. Þetta er vagga dægurlagatónlistarinnar. „Blues had a baby and they called it rock n" roll“. Síðan eru barnabörnin óteljandi eins og rapp, hip hop og dauðarokk.“

KK spilar næst í Fríkirkjunni annað kvöld á Blúshátíð Reykjavíkur. Þar koma einnig fram Zora Young, Andrea Gylfadóttir, Lay Low, Brynhildur Björnsdóttir og Goðsagnir Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.