Í aðdraganda kosninga 24. apríl 2007 06:00 Þau sem hafa það að atvinnu eða áhugamáli að spá og spekúlera um þjóðmálin færast nú öll í aukana. Kannski ætti ég frekar að segja þeir, því karlpeningur skipar frekar þennan flokk fólks en konur. Þeir eru svo djúpir og gáfaðir í umfjöllun sinni að konu verður um og ó, eða kannski bara hræddust við að hún detti líka í þennan pytt alvisku þegar kemur að því að fjalla um það sem efst er á baugi þessa dagana - náttúrlega kosningarnar og úrslit þeirra. Þessi pistlahöfundur hefur löngum verið þeirrar skoðunar að fólk eigi að reyna að ræða um pólitík sem mest æsingalaust. Hún getur því verið harla ánægð þessa dagana því ekki eru miklar æsingar í pólitíkinni nema þá helst þegar ungu vinstri grænu konurnar kveðja sér hljóðs því þær eru svo heppnar að virðast hafa höndlað sannleikann og þá er ekki nema von að konum verði mikið niðri fyrir þegar einhverjir eru á öðru máli. Skoðanakannanir eru annars það sem hæst ber í stjórnmálaumræðu þessa dagana og spurningin um í hvers líki Framsóknarflokkurinn verður þegar talið verður upp kjörkössunum, verður hann maur eða mús eða kannski eins og mammútsdvergur? Stjórnarflokkarnir hafa nú unnið saman í tólf ár og munu ábyggilega gera það áfram eftir kosningar ef kjósendur veita þeim brautargengi til þess. Kærleikar eru miklir á stjórnarheimilinu, svo miklir að sjálfstæðismennirnir virðast frekar í öngum sínum yfir slælegum skilum til samstarfsflokksins í skoðanakönnunum. Sjálfstæðismennirnir fara frekar hjá sér og segjast lítið eða jafnvel ekkert skilja í þessari útreið samstarfsmanna sinna í ríkisstjórninni. Ríksstjórnarflokkarnir vilja óbreytt ástand, enginn skal furða sig á því, þeir hafa ráðið lögum og lofum í landinu. Það er meira að segja svo að stundum er ekki annað að skilja á sumum þingmönnum þeirra en að þeim finnist starfið í þinginu bara nokkurs konar formsatriði, ríkisstjórnin hefur jú meirihluta segja þeir og þess vegna þarf ekki að hlusta á aðra. Þannig virðast ungir háskólamenntaðir lögfræðingar halda að þingræðisstjórn sé það sama og að kúga alltaf minnihlutann. - Það er vont mál. Í Danmörku er einnig þingræðisstjórn. Þar er málum þannig háttað að þriðjungur þingmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt eru í þinginu (þetta á þó ekki við um alla málaflokka t.d. ekki málefni er varða efnahagsstjórn eða skattamál). Einu sinni hefur reynt á þetta ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar en það var árið 1963, niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var sú að fern lög sem samþykkt höfðu verið voru felld úr gildi. Það liggur nokkuð í augum uppi að ákvæði af þessu tagi verða til þess að síður eða að minnsta kosti í minna mæli er gengið á rétt eða skoðanir minnihlutans en við eigum að venjast hér í norðrinu. Nú um helgina var fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Í aðdraganda kosninganna var mikil áhersla lögð á að fá fólk til að fara á kjörstað þ.e. að nota atkvæðisrétt sinn - og höfðu stjórnmálamenn erindi sem erfiði. Stundum er sagt að það sé borgaraleg skylda að kjósa. Með sjálfri mér hef ég efast um að það geti verið alveg rétt, hins vegar er ég til í að samþykkja að það sé borgaraleg skylda að fara á kjörstað. Ef fólki þóknast ekkert af því sem er í boði finnst mér hins vegar vafasamt að krefja það um að greiða atkvæði. Í Belgíu þar sem ég bjó í ára-raðir er það ekki bara borgaraleg skylda að fara á kjörstað heldur líka lagaleg. Og kjörstaðir eru almennt ekki opnir nema hálfan daginn, loka um hádegisbilið. Nokkuð yfir níutíu prósent þjóðarinnar skila sér á kjörstað. Ef fólk á heima í námunda við kjörstaði eins og ástatt var um okkur er mikil örtröð í götunni þann sunnudagsmorguninn. Kosningaþátttaka hefur farið minnkandi hér á landi eins og annars staðar. Ein ástæða þess er líklega það sem stundum er orðað einhvern veginn sem svo „að það er sami rassinn undir þeim öllum". Þá held ég að fólk eigi við að það treysti ekki lengur stjórnmálamönnum, þeir skari fremur eld að eigin köku en að hugsa um velferð almennings. Málum er illa komið þegar svo háttar. Stjórnmálaflokkarnir verða allir að sjá til þess að kjósendur hafi ekki rétt fyrir sér í þessu efni. Auk þess legg ég til að eftirlaunaósóminn verði afnuminn með lögum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Valgerður Bjarnadóttir Mest lesið Við þekkjum öll einn alkóhólista - hættum að stinga höfðinu í sandinn Bryndís Rós Morrison Skoðun KVISS BANG! - mætti lausnin sem bjargaði Svíum nýtast okkur ? Jakob Frímann Magnússon Skoðun „Hvenær var þetta samtal við þjóðina tekið?“ spurði garðyrkjubóndinn Halla Hrund Logadóttir Skoðun Mikilvægi samfélagslöggæslu Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir Skoðun Fær ESB Ísland í jólagjöf? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum Skúli Bragi Geirdal Skoðun Þetta er víst einkavæðing! Engilbert Guðmundsson Skoðun Náttúruspjöll í sveitarfélagi ársins Kjartan H. Ágústsson Skoðun Að eta útsæði Sigríiður Á. Andersen Skoðun Kjósum velferð dýra Þórunn Sveinbjarnardóttir Skoðun
Þau sem hafa það að atvinnu eða áhugamáli að spá og spekúlera um þjóðmálin færast nú öll í aukana. Kannski ætti ég frekar að segja þeir, því karlpeningur skipar frekar þennan flokk fólks en konur. Þeir eru svo djúpir og gáfaðir í umfjöllun sinni að konu verður um og ó, eða kannski bara hræddust við að hún detti líka í þennan pytt alvisku þegar kemur að því að fjalla um það sem efst er á baugi þessa dagana - náttúrlega kosningarnar og úrslit þeirra. Þessi pistlahöfundur hefur löngum verið þeirrar skoðunar að fólk eigi að reyna að ræða um pólitík sem mest æsingalaust. Hún getur því verið harla ánægð þessa dagana því ekki eru miklar æsingar í pólitíkinni nema þá helst þegar ungu vinstri grænu konurnar kveðja sér hljóðs því þær eru svo heppnar að virðast hafa höndlað sannleikann og þá er ekki nema von að konum verði mikið niðri fyrir þegar einhverjir eru á öðru máli. Skoðanakannanir eru annars það sem hæst ber í stjórnmálaumræðu þessa dagana og spurningin um í hvers líki Framsóknarflokkurinn verður þegar talið verður upp kjörkössunum, verður hann maur eða mús eða kannski eins og mammútsdvergur? Stjórnarflokkarnir hafa nú unnið saman í tólf ár og munu ábyggilega gera það áfram eftir kosningar ef kjósendur veita þeim brautargengi til þess. Kærleikar eru miklir á stjórnarheimilinu, svo miklir að sjálfstæðismennirnir virðast frekar í öngum sínum yfir slælegum skilum til samstarfsflokksins í skoðanakönnunum. Sjálfstæðismennirnir fara frekar hjá sér og segjast lítið eða jafnvel ekkert skilja í þessari útreið samstarfsmanna sinna í ríkisstjórninni. Ríksstjórnarflokkarnir vilja óbreytt ástand, enginn skal furða sig á því, þeir hafa ráðið lögum og lofum í landinu. Það er meira að segja svo að stundum er ekki annað að skilja á sumum þingmönnum þeirra en að þeim finnist starfið í þinginu bara nokkurs konar formsatriði, ríkisstjórnin hefur jú meirihluta segja þeir og þess vegna þarf ekki að hlusta á aðra. Þannig virðast ungir háskólamenntaðir lögfræðingar halda að þingræðisstjórn sé það sama og að kúga alltaf minnihlutann. - Það er vont mál. Í Danmörku er einnig þingræðisstjórn. Þar er málum þannig háttað að þriðjungur þingmanna getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög sem samþykkt eru í þinginu (þetta á þó ekki við um alla málaflokka t.d. ekki málefni er varða efnahagsstjórn eða skattamál). Einu sinni hefur reynt á þetta ákvæði dönsku stjórnarskrárinnar en það var árið 1963, niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar var sú að fern lög sem samþykkt höfðu verið voru felld úr gildi. Það liggur nokkuð í augum uppi að ákvæði af þessu tagi verða til þess að síður eða að minnsta kosti í minna mæli er gengið á rétt eða skoðanir minnihlutans en við eigum að venjast hér í norðrinu. Nú um helgina var fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Í aðdraganda kosninganna var mikil áhersla lögð á að fá fólk til að fara á kjörstað þ.e. að nota atkvæðisrétt sinn - og höfðu stjórnmálamenn erindi sem erfiði. Stundum er sagt að það sé borgaraleg skylda að kjósa. Með sjálfri mér hef ég efast um að það geti verið alveg rétt, hins vegar er ég til í að samþykkja að það sé borgaraleg skylda að fara á kjörstað. Ef fólki þóknast ekkert af því sem er í boði finnst mér hins vegar vafasamt að krefja það um að greiða atkvæði. Í Belgíu þar sem ég bjó í ára-raðir er það ekki bara borgaraleg skylda að fara á kjörstað heldur líka lagaleg. Og kjörstaðir eru almennt ekki opnir nema hálfan daginn, loka um hádegisbilið. Nokkuð yfir níutíu prósent þjóðarinnar skila sér á kjörstað. Ef fólk á heima í námunda við kjörstaði eins og ástatt var um okkur er mikil örtröð í götunni þann sunnudagsmorguninn. Kosningaþátttaka hefur farið minnkandi hér á landi eins og annars staðar. Ein ástæða þess er líklega það sem stundum er orðað einhvern veginn sem svo „að það er sami rassinn undir þeim öllum". Þá held ég að fólk eigi við að það treysti ekki lengur stjórnmálamönnum, þeir skari fremur eld að eigin köku en að hugsa um velferð almennings. Málum er illa komið þegar svo háttar. Stjórnmálaflokkarnir verða allir að sjá til þess að kjósendur hafi ekki rétt fyrir sér í þessu efni. Auk þess legg ég til að eftirlaunaósóminn verði afnuminn með lögum.