Tónlist

Skátar: Ghosts Of The Bollocks To Come - fjórar stjörnur

Með Ghost Of The Bollocks To Come festa Skátar sig í sessi sem ein áhugaverðasta rokksveit landsins. Hrá og kraftmikil jaðarrokkplata frá sveit sem fer sínar eigin leiðir.
Með Ghost Of The Bollocks To Come festa Skátar sig í sessi sem ein áhugaverðasta rokksveit landsins. Hrá og kraftmikil jaðarrokkplata frá sveit sem fer sínar eigin leiðir.

Ghosts Of The Bollocks To Come er fyrsta plata Skáta í fullri lengd, en áður höfðu þeir sent frá sér sex laga EP-plötuna Heimsfriður í Chile: Hverju má breyta, bæta við og laga? Sú plata kom út í desember 2004 og innihélt m.a. smellinn Halldór Ásgrímsson. Hún sýndi að þarna var efnileg rokksveit á ferð. Með nýju plötunni festa Skátar sig í sessi sem ein af áhugaverðari hljómsveitum landsins.

Ghosts Of The Bollocks To Come var að mestu tekin upp á einni helgi fyrir rúmu ári, en um eftirvinnslu sáu m.a. feðgarnir John og JJ Golden sem hafa unnið fyrir sveitir á borð við Sonic Youth, Comets Of Fire, Primus, Superchunk, Calexico og Bad Brains.

Tónlist Skáta sækir í ýmis afbrigði úr rokksögunni, en samt er hún ekki eins og neitt annað sem er í gangi á dag. Það er eins og þeir félagar hafi fundið sína eigin leið í gegnum völundarhús rokksögu síðustu 25 ára. Post-pönkaðar gítarlínur blandast við Devo-lega hljómborðskafla og nýprogglegar taktbreytingar og kaflaskipti. Krafturinn og keyrslan eru einkennandi og hljómurinn er hrár og flottur.

Það koma ýmis nöfn upp í hugann þegar maður hlustar á plötuna, (allt frá Dead Kennedys og Pere Ubu yfir í Pavement og Sonic Youth), en Skátunum tekst að láta þetta hljóma nokkuð ferskt. Þeir sýna líka allir góð tilþrif á hljóðfærin.

Lögin níu á plötunni standa öll fyrir sínu, en mín uppáhaldslög eru fyrstu tvö lögin, Lime of Love og Love of Lime, Þar sem heimskan er í hávegum höfð, 5:45 Reykjavík og lokalagið, hið Pavement-lega Taco N ‘ Surf A Prayer.

Ghosts Of The Bollocks To Come telst vel heppnuð rokkplata, en hún er ekki fullkomin. Mér finnst t.d. að þeir Skátar hafi ekki alveg gert upp við sig hvað þeir vilja gera við sönginn og svo vantar herslumuninn upp á heildarmyndina. Með sama áframhaldi ætti næsta plata samt að verða meistaraverk!

Trausti Júlíusson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×