Tónlist

Sigur Rós með leynitónleika

Lék á órafmögnuðum tónleikum um helgina.
Lék á órafmögnuðum tónleikum um helgina. MYND/Hörður

Hljómsveitin Sigur Rós hélt órafmagnaða tónleika á Gömlu Borg í Grímsnesi síðastliðið sunnudagskvöld. Tónleikarnir voru eingöngu fyrir vini og fjölskyldur meðlima Sigur Rósar og strengjasveitarinnar Amiinu sem lék með þeim.

Boðið var upp á pönnukökur og vöfflur og lék Sigur Rós alls sjö lög, þar af eitt nýtt. Þau voru Von (í nýrri útgáfu), Samskeyti, Vaka, Ágætis byrjun, nýtt lag, Heysátan og Starálfur. Tónleikarnir voru teknir upp.

Meðal gesta voru Ásmundur Jónsson í Smekkleysu, Þorvaldur Gröndal, trommari Trabant, Árni Matthíasson af Morgunblaðinu, Torfi Tulinius bókmenntafræðiprófessor og tveir meðlima Jakobínarínu.

Á fréttasíðu hljómsveitarinnar, Sigur-ros.co.uk, kemur fram að meðlimir Sigur Rósar ætli að koma sér fyrir í sumarbústað í næsta mánuði. Þar hyggjast þeir taka upp gömul lög í nýjum, órafmögnuðum útsetningum og ný órafmögnuð lög sömuleiðis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×