Tónlist

Volta fær góðar viðtökur

Nýjasta plata Bjarkar, Volta, hefur fengið ákaflega góðar viðtökur.
Nýjasta plata Bjarkar, Volta, hefur fengið ákaflega góðar viðtökur.

Nýjasta plata Bjarkar Guðmundsdóttur, Volta, kom út í gær og stefnir í að verða vinsælasta plata hennar í langan tíma.

Volta hefur selst afar vel hérlendis síðan hún kom út í gær. „Salan hérna heima er sú mesta sem við höfum séð hjá Björk í langan tíma," segir Ásmundur Jónsson, útgáfustjóri Smekkleysu.

„Þetta er góð innspýting í plötusöluna hérna, sem hefur verið frekar róleg undanfarið."

Volta hefur fengið gríðarlega góða dóma bæði í innlendum sem erlendum fjölmiðlum, þar á meðal fjórar stjörnur í Fréttablaðinu, fimm stjörnur í Attitude og fjórar af fimm mögulegum í tímaritunum Mojo og Uncut. Í dómi Uncut segir að Volta sé kraftmesta plata Bjarkar í tíu ár. „Á Volta virðist hún skynja dauðleika sinn. Á sama tíma hefur hún aldrei hljómað jafnlifandi. Ást hennar á börnum, jörðinni og mannkyninu gegnumlykur alla plötuna," segir þar.

Almenn spilun á BBC
Björk er um þessar mundir á tónleikaferð um Bandaríkin.

Ásmundur er að vonum hæstánægður með þessa prýðilegu dóma. „Hún fær góða dóma í öllum helstu fjölmiðlum heims þannig séð, þar á meðal í Guardian, Independent, í Þýskalandi og í frönsku pressunni. Ég hef engan dóm séð minni en fjórar stjörnur eða minni en 8 af 10 mögulegum."

Fyrsta smáskífulag plötunnar, Earth Intruders, hefur jafnframt vakið mikla athygli og er það þegar komið í almenna spilun hjá BBC í Bretlandi. Náði ekkert lag af síðustu tveimur plötum Bjarkar þeim árangri.

Yfir tveimur milljónum?

Að sögn Ásmundar seldust síðustu tvær plötur Bjarkar, Medúlla og Vespertine, í um einni og hálfri til tveimur milljónum eintaka hvor víðs vegar um heiminn. Býst hann við því að Volta eigi eftir að seljast enn betur. „Miðað við þessa athygli held ég að fólk geti verið bjartsýnt, það er engin spurning."

Volta er sjötta hljóðversplata Bjarkar og sú fyrsta síðan Medúlla kom út árið 2004. Tónleikaferð Bjarkar um Bandaríkin er nýhafin og fékk hún afar góða dóma fyrir fyrstu tónleika sína í Radio City Music Hall í New York. Hoppaði hún um sviðið í appelsínugulum kjól og söng lög af Volta í bland við eldri slagara á borð við Joga, Army of Me og The Anchor Song, sem var sungið á íslensku. Taldi greinarhöfundur tónleikana hafa verið þá bestu sem hann hefði séð hingað til með Björk.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.