Erlent

Bandaríska þingið gegn árás á Íran

MYND/AP
Hópur þingmanna demókrata og repúblikana í fulltrúadeild bandaríska þingsins ætlar sér að leggja fram tillögu sem kæmi í veg fyrir að George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, gæti ráðist á Íran án samþykkis þingsins.

Þingmenn hafa áhyggjur af því að æ árásargjarnari stefna Bandaríkjanna gegn Íran eigi eftir að enda illa og því gripu þeir til þessa ráðs. Tillöguna þarf þó að samþykkja í báðum deildum þingsins og Bush sjálfur verður að undirrita hana til þess að hún verði að lögum.

Sem stendur styðja aðeins 11 af 435 meðlimum fulltrúadeildarinnar tillöguna. Það gæti hins vegar breyst á næstu dögum í ljósi fullyrðinga Bush um Íran í vikunni. Þá sagði hann „Ég hef tekið það skýrt fram að ef þeir eru að flytja vopn innan Íraks og það skaðar lýðræði og sérstaklega hermenn okkar, munum við ganga í málið."

Einn af stuðningsmönnum tillögunnar, Martin Meehan, sagði að þó hann treysti ekki Íran og áætlunum þess varðandi Mið-Austurlönd, treysti hann Bush ekki heldur. Ástæðuna sagði hann vera síendurteknar lygar Bush fyrir innrásina í Írak.

Eftir að Bandaríkin sendu sitt annað flugmóðurskip á Persaflóa hafa áhyggjur af hugsanlegri árás Bandaríkjanna á Íran aukist til muna. Bush bætti olíu á eldinn þegar hann fullvissaði bandamenn sína í Mið-Austurlöndum að hann myndi gera meira til þess að halda aftur af Íran.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×