Viðskipti með bréf Century Aluminum á fyrsta viðskiptadegi félagsins á First North markaðnum í gær námu fjörutíu milljónum. Century er fyrsta bandaríska félagið sem er skráð á íslenskan hlutabréfamarkað.
Sex viðskipti voru með bréf í Century Aluminum Company, móðurfélagiNorðuráls, á fyrsta viðskiptadegi þess á First North-markaðnum í gær. Markaðsvirði viðskiptanna var um 40,5 milljónir íslenskra króna.
Viðskiptin með Century í gær geta talist góð, í það minnsta ef miðað er við venjulegan dag á First North-markaðnum á Íslandi. Fyrir eru Grandi og Hampiðjan skráð á markaðinn. Viðskipti með bréf þeirra félaga hafa hingað til verið lítil sem engin.
Í gærmorgun var margmenni mætt í Kauphöll Íslands til að fylgjast með fyrstu viðskiptum Century á markaðnum. Félagið, sem einnig er skráð á Nasdaq-hlutabréfamarkaðinn, er fyrsta bandaríska félagið til að verða skráð á Íslandi.
Meðal þeirra sem mættu til athafnarinnar voru þeir Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings banka og Halldór Kristjánsson, bankastjóri Landsbankans. Kaupþing og Landsbankinn voru umsjónaraðilar skráningar félagsins hér á landi. Logan Kruger, forstjóri Century, sagði viðtökur íslenskra fagfjárfesta við nýloknu hlutafjárútboði félagsins hafa verið framar vonum stjórnenda þess.
Markaðsvirði þeirra hluta Century sem skráðir eru hér á landi nemur 6,45 milljörðum íslenskra króna. Heildarmarkaðsvirði félagsins nemur tæpum 140 milljörðum íslenskra króna.