Erlent

41 sagður hafa látist í óveðrinu

Á fimmta tug manna hafa látið lífi í fárviðri sem geisað hefur í Evrópu undanfarinn sólarhring. Samgöngur í álfunni eru í uppnámi og rafmagnsleysi hefur bitnað á milljónum manna. Íslendingur búsettur í Tékklandi segir að tré hafi rifnað upp með rótum í nágrenni við hann í mesta ofsanum.

Veðrið er með því versta sem dunið hefur á Evrópubúum í háa herrans tíð. Bretar urðu fyrstir fyrir barðinu á storminum sem síðan fikraði sig austur eftir álfunni í nótt og í morgun. Óveðrið skilur eftir sig slóð eyðileggingar enda fór vindhraðinn í verstu hviðunum upp í 60 metra á sekúndu, sem er á við öflugan fellibyl. Manntjónið í veðrinu er umtalsvert. Á Bretlandseyjum eru tólf látnir af völdum þess, ellefu í Þýskalandi, sex í Hollandi og aðrir sex í Póllandi. Þá liggja fjórir í valnum í Tékklandi. Þar var hátt í ein milljón manna án rafmagns langt fram eftir degi.



Innanlandsflug hefur víðast hvar legið niðri vegna veðursins og lestarferðir sömuleiðis, sérstaklega eftir að aðallestarstöðin í Berlín, sem er ein sú stærsta í Evrópu, skemmdist í hamaganginum. Í dag hefur veðrið gengið talsvert niður en samgöngur á svæðinu hafa samt gengið erfiðlega. Þannig lenti hópur Íslendinga á leið til Magdeburgar til að hvetja landsliðið á HM í handbolta í vandræðum og eftir því sem næst verður komið er hópurinn ekki enn kominn á leiðarenda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×