Handbolti

Horfði á landsleikinn úr sjúkrarúminu

Það ráku margir upp stór augu í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöld þegar þeir sáu að Einar Þorvarðarson, framkvæmdastjóri HSÍ, var kominn á varamannabekk íslenska liðsins við hlið Alfreðs en aðstoðarþjálfarinn, Guðmundur Guðmundsson, var víðs fjarri. Það átti sínar eðlilegu skýringar.

„Ég fékk nýrnasteinakast aðfaranótt sunnudags og var fluttur á spítala í sjúkrabíl. Þar dvaldi ég síðan meðan leikurinn fór fram því miður. Ég hef aldrei forfallast á slíkan hátt áður í leik. Þetta var líka tíminn til að lenda á spítala. Það var mjög svekkjandi að missa af þessu,“ sagði Guðmundur við Fréttablaðið í gær en hann var þá nýútskrifaður af sjúkrahúsinu. Þeir sem til þekkja vita að það er ekkert grín að fá nýrnasteinakast en því fylgja ólýsanlegar kvalir.

„Þetta var alveg hrikalega sárt. Ég vissi hreinlega ekki hvað var að gerast því kvalirnar voru óbærilegar. Þær eru ólýsanlegar,“ sagði Guðmundur en náði hann að sjá leikinn. „Já, ég náði nú að sjá leikinn. Ég horfði á hann við illan leik í sjúkrarúminu enda búinn að fá sterk lyf við verkjunum. Ég var nú ekkert hoppandi upp og niður enda var ég ekki í neinu ástandi til að standa í slíku.“

Alfreð og Guðmundur hafa náð vel sama með landsliðið og Guðmundur þekkir það best af eigin raun hversu gott það er að hafa góðan aðstoðarmann til að benda á hluti sem kannski fara fram hjá þjálfaranum í hita leiksins. „Alfreð er frábær þjálfari en það er oft gott að fá góð ráð og út á það gengur slíkt samstarf. Ég treysti samt Einari vel fyrir þessu enda vanur maður,“ sagði Guðmundur en Einar aðstoðaði einmitt Guðmund þegar hann var landsliðsþjálfari á sínum tíma.

Guðmundur sagði að það hefði ekkert verið rætt hvort hann yrði áfram með Alfreð ætli hann að þjálfa landsliðið áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×