Tónlist

Tíu ára afmæli Furstanna

Þeir syngja með Furstunum í kvöld sem fagna tíu ára starfsafmæli.
Þeir syngja með Furstunum í kvöld sem fagna tíu ára starfsafmæli.
Tíu ára starfsafmæli Furstanna verður haldið á Kringlukránni um helgina. Á efnisskrá Furstanna verður swing og latínmúsik, efni sem hún hefur verið að leika undanfarin ár.



„Til þess að dreifa þessu örlítið og ná til breiðari hóps höfum við fengið Stefán úr Lúdó og André Bachmann til liðs við okkur,“ segir Geir Ólafsson, söngvari Furstanna. „Breiddin verður í hávegum höfð og við verðum í góðum gír hvað það varðar.“



Furstarnir voru stofnaðir fyrir tilstilli Harðar Magnússonar sem rak Ártún í denn. „Hann vildi endurvekja dansmenninguna og bað mig og Árna Scheving að búa til band. Það átti bara að vera sumarband en okkur þótti svo gaman að fá að spila svona músik og þeir höfðu svo gaman af því að svona ungur drengur, eins og ég var þá, vildi spila svona músik,“ útskýrir Geir. „Svo leiddi bara eitt af öðru og síðan hefur þetta verið upp á við.

Áður en við vissum af vorum við búnir að starfa í tíu ár sem er mikið ánægjuefni. Það er gaman að svona hópur, þar sem aldursmunurinn er svo mikill, skuli ná að halda saman og alltaf síhressir og síkátir.“

Afmælistónleikarnir verða bæði föstudags- og laugardagskvöld og hefjast klukkan 23.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×