Seðlabanki Indlands ákvað undir lok síðustu viku að hækka stýrivexti um fjórðung úr prósentustigi og standa vextirnir nú í 7,75 prósentum. Þetta er í annað sinn á þessu ári sem bankinn hækkar stýrivexti í þeim tilgangi að halda aftur af verðbólgu. Stýrivextir á Indlandi hafa ekki verið hærri í tæp fjögur og hálft ár.
Verðbólga mælist nú 6,46 prósent á Indlandi en það er nokkuð yfir 5,5 prósenta efri verðbólgumarkmiðum seðlabankans.
BBC bendir á að hagvöxtur mælist 9 prósent það sem af sé árs. Þetta er sambærilegur hagvöxtur og á síðasta ári. Við það hafi kaupmáttur millistéttarinnar aukist. Neikvæðu fréttirnar séu hins vegar þær að vöruverð hafi hækkað og komi það hart niður á lægri og fátækari stéttum.