Erlent

Hægist um í Mogadishu

Ró komst á í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu, í nótt. Hart hafði verið barist undanfarna fjóra daga. Almenningur gat farið úr fylgsnum sínum út á götur og hófst handa við að grafa lík sem lágu á víð og dreif um höfuðborgina.

Talið er að um 47 þúsund manns hafi yfirgefið borgina eftir bardaga undanfarinna daga. Ef rétt er hafa allt í allt 96 þúsund manns yfirgefið borgina síðan í febrúar.

Þrátt fyrir átökin segjast yfirvöld í Sómalíu þess fullviss um að brátt muni komast á friður í landinu. Miklar vonir eru bundnar við sáttfund ættbálkahöfðingja, stjórnmálamanna og fyrrum uppreisnarleiðtoga sem á að fara fram þann 16. apríl næstkomandi.

Þetta er í 14. sinn sem reynt er að koma á stjórn í Sómalíu undanfarin 16 ár. Engin eiginleg stjórnvöld hafa verið við lýði í landinu síðan einræðisherranum Siad Barre var steypt af stóli árið 1991.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×