Tónlist

Góðir gestir snúa aftur

Rómaðir flytjendur kammer- og hljómsveitarverka í heimalandi sínu Tékklandi.
Rómaðir flytjendur kammer- og hljómsveitarverka í heimalandi sínu Tékklandi.

Tékkneski strengjakvartettinn PiKap heldur sex tónleika hér á landi á næstum dögum ásamt Eydísi Franzdóttur óbóleikara.

PiKap strengjakvartettinn hefur haldið fjölda tónleika víða um Evrópu og fengið mikið lof gagnrýnenda fyrir einstaklega vandaðan og tilfinningaríkan flutning.

Kvartettinn er skipaður fiðluleikurunum Martin Kaplan og Lenku Simandlovu, lágfiðluleikaranum Miljo Milev og sellóleikaranum Petr Pitra sem öll eru mjög virk í tónlistarlífi Vestur-Tékklands bæði í kammermúsík og hljómsveitarleik. Auk þess að spila saman sem kvartett hafa þau öll, að Martin Kaplan undanskyldum, verið hljóðfæraleikarar við sinfóníuhljómsveitina í Karlovy Vary. Martin er konsertmeistari við óperuhljómsveitina í Pilzen. Samstarf kvartettsins við Eydísi Franzdóttur óbóleikara hófst árið 2004 er hún skipulagði ferna tónleika þeirra hérlendis þar sem þau hlutu afbragðs viðtökur áheyrenda. Sumarið 2005 buðu þau henni að vera gestur þeirra á þrennum tónleikum í Tékklandi.



Fyrstu tónleikarnir verða í Bíósal Duushúsa í Reykjanesbæ á miðvikudagskvöldið en þá frumflytur hópurinn meðal annars nýjan kvintett fyrir óbó og strengi eftir Eirík Árna Sigtryggsson.

Síðan taka við tónleikar í Ketilhúsinu á Akureyri á föstudag en þeir eru liður í Listasumri norðanmanna sem nú stendur sem hæst.

Hópurinn færir sig síðan austar um helgina og heldur tónleika í Reykjahlíðarkirkju á laugardag og í Gamla Bauk á Húsavík á sunnudag. Höfuðborgarbúar geta síðan hlýtt á tónleika þeirra í Listasafni Sigurjóns að viku liðinni en rúntinum lýkur í tónlistarhúsinu Hömrum á Ísafirði 5. júlí.

Auk frumflutnings á verki Eiríks Árna mun PiKap kvartettinn gefa landsmönnum innsýn í tónlist föðurlandsins með flutningi á strengjakvartettum eftir tékknesku tónskáldin Dvorak, Martinu, Janacek, Ryba og Simandl, ásamt því að flytja verk eftir Mozart og Vaughan Williams.



Aðgangur er ókeypis á alla tónleikana nema á Akureyri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×