Tónlist

Djass fyrir austan

Árni Ísleifsson hefur haldið úti djasshátíð á Héraði í tvo áratugi. Hún hefst í kvöld og teygir sig niður á Firði.
Árni Ísleifsson hefur haldið úti djasshátíð á Héraði í tvo áratugi. Hún hefst í kvöld og teygir sig niður á Firði.

Djasshátíð Egilsstaða á Austurlandi, ein elsta sérhæfða tónlistarhátíðin utan Reykjavíkur, er nýhafin. Hátíðin varð til fyrir tuttugu árum í sumarblíðu á Egilsstöðum og varð að veruleika sumarið 1988. Síðan hefur hún fest sig í sessi þótt frumkvöðullinn, Árni Ísleifsson, hafi á tíðum látið hafa eftir sér að nú skorti hann þrek til að halda hátíðinni áfram.

Fyrsta hátíðin, sumarið 1988, skartaði þekktum mönnum úr djasslífinu: Jón Múli og Viðar Alfreðsson voru báðir á staðnum, þjóðkunnir fyrir sinn skerf til djassmenningar landans. Yngri kynslóðin lét sig heldur ekki vanta.

Síðan er mikið vatn runnið til sjávar frá Héraði og úr sölum hátíðarinnar hafa margir tónar liðið inn í sumarkvöldin þar eystra. Hátíðin nú er enn að stærstu verk Árna þótt hann hafi notið aðstoðar yngri manna við bókanir. Mörg fyrirtæki að austan og með starfsemi um land allt, allan heim, leggja henni nú lið með fjárhagslegum stuðningi.

Í kvöld spilar Hrafnaspark, sem er tríó frá Akureyri, sérhæft í sígaunadjassi í anda Django Reinhardt.

Þar verður einnig framlag frá Djasssmiðju Austurlands. Verður hátíðin sett á Hótel Héraði en það er einn þeirra staða sem verða virkir í samkomuhaldi hátíðarinnar næstu daga:

Á fimmtudagskvöld verður djassað í Hótel Egilsbúð í Neskaupstað. Þar verður Djasssmiðjan aftur á ferð, ungir djassarar af Austurlandi og Flís að auki.

Á föstudagskvöld verða stórtónleikar í Herðubreið á Seyðisfirði með erlendum gestum: James Carter blásari fer þar fremstur. Þessi fjölhæfi saxófónleikari er fæddur í Detroit í Bandaríkjunum og vakti snemma athygli fyrir saxófónleik sinn.

Hann hefur leikið með fjölda snillinga og til að nefna nokkra Herbie Hancock, Lester Bowie, Buddy Tate og Cyrus Chestnut. Carter leikur jöfnum höndum á allar gerðir saxófónsins og hefur verið valinn besti baritónsaxófónleikari heims í hinu virta DownBeat tímariti fimm sinnum.

James er ekki einn gesta að koma fram það kvöld: Deitra Farr er ekki ókunnug okkur Íslendingum.

Hún kom fram á hátíðinni með Vinum Dóra 1992 og kom hingað til lands aftur 2005. Í bæði skiptin var hún aufúsugestur og hreyfði við hjörtum þeirra sem heyrðu. Hún kemur fram í Herðubreið með Riotinu, þeim Birni Thoroddsen, Ásgeiri Óskarssyni, Dóra Braga, Jóni Rafnssyni og nafna hans Ólafssyni hljómborðsleikara. Þeir troða síðan upp með Deitra, Andreu Gylfadóttur og Gospelkór Fjarðabyggðar á stórtónleikum í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði. Það mun sjóða á keipum þann daginn í góðviðrinu en fjörið hefst kl. 14. 

Í sömu mund hefjast afmælistónleikar hátíðarinnar uppi á Héraði: fyrst með ræðuhöldum því þar verður Árni Ísleifsson heiðraður sérstaklega fyrir framlag sitt til tónlistarlífs á Íslandi og síðan dagskrá fram undir kvöldmat: þar koma fram Blúsbrot Garðars Harðar, Pitch Fork Rebellion, minnst verður Lesters Young, Riot kemur fram eftir snöggan bíltúr af gospeltónleikunum á Eskifirði, Sean Walsh Band spilar, Narodna Musika leggur sitt til hátíðahaldsins og loks hita Jagúarmenn sig upp fyrir lokadansleik hátíðarinnar sem verður frá 22 um kvöldið í Valaskjálf. Þá skal Skjálfin nötra.

Áhugasamir geta kynnt sér hátíðina á vefsíðunni www.jea.is. Svo er bara að setjast í bíla og leggja af stað ellegar ná sér í flug, í versta falli fljúga sjálfur.


Tengdar fréttir

Bláir skuggar í Hafnarborg

Norski málarinn Kjell Nupen opnar sýningu á málverkum og grafíkverkum í Hafnarborg í Hafnarfirði í dag. Sýningin er farandsýning sem hefur göngu sína hér en fer síðan til þriggja annarra safna: Safnsins á Haugum í Vestfold í Noregi, Safns trúarlegrar listar og Kastrupgaard-safnsins í Danmörku. Ferðalagið er styrkt af norska sendiráðinu í Kaupmannahöfn og Norræna menningarsjóðnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×