Tónlist

Tónleikar The Rapture - fimm stjörnur

Hljómsveitin The Rapture stóð undir þeim miklu væntingum sem gerðar voru til hennar á frábærum tónleikum á Nasa á þriðjudagskvöldið.
Hljómsveitin The Rapture stóð undir þeim miklu væntingum sem gerðar voru til hennar á frábærum tónleikum á Nasa á þriðjudagskvöldið.

Það voru nýstirnin í hljómsveitinni Motion Boys sem hituðu upp fyrir The Rapture á Nasa á þriðjudagskvöldið. Motion Boys er mikið hampað þessa dagana og þess vegna gaman að fá tækifæri til að sjá hvernig sveitin spjarar sig á tónleikum.

Þeir Birgir Ísleifur og Árni Plúseinn mættu með þrjá hljóðfæraleikara með sér og fengu frábærar viðtökur strax frá fyrsta hljómi. Þeir virka vel sem tónleikaband þó að þessi fimm lög sem þeir tóku hafi verið misgóð. Nýja lagið sem þeir spiluðu, Steal Your Love, er mjög flott (ekki síst byrjunin) og slagarinn Hold Me Close To Your Heart er ennþá kraftmeiri og flottari á tónleikum heldur en í útvarpinu. Það er of snemmt að kveða upp einhverja stóra dóma, en þetta er sveit sem lofar góðu.

Þegar The Rapture steig á svið nokkru seinna var orðið þægilega fullt í salnum. Það kom mér reyndar á óvart að það skyldi ekki vera löngu uppselt á þessa tónleika, bæði vegna þess hvað frammistaða þeirra á Airwaves fyrir fimm árum þótti mögnuð og vegna þess að The Rapture er af mörgum talin ein af skemmtilegustu tónleikasveitunum í dag.

Ég var á Gauknum 2002 og steinlá fyrir bandinu þá þannig að ég mætti á Nasa með miklar væntingar. The Rapture stóð undir þeim næstum því öllum.

Þeir byrjuðu á laginu Out Of The Races af samnefndri EP-plötu, tóku svo Down For So Long og Get Myself Into It af nýju plötunni og fóru svo yfir í Sister Saviour af Echoes. Hörkubyrjun og strax komin mikil stemning í salinn. Það sem gerir The Rapture að svona skemmtilegri tónleikasveit er auðvitað hvað þetta er taktglöð og stuðvekjandi tónlist, en líka hvað hún er einföld og hrá og hvað meðlimir sveitarinnar leggja mikið í að gera tónleikana lifandi.

Þeir eru á þeytingi um sviðið og passa sig að vanda sig ekki allt of mikið í spilamennskunni. Ryþmaparið Vito og Mattie er frábært og Luke er mjög ryþmískur og skemmtilegur gítarleikari. Svo er Gabriel líka ómissandi hvort sem hann handleikur saxófóninn eða kúabjölluna. The Rapture tók flest af sínum þekktustu lögum á tónleikunum og hápunktarnir voru margir, t.d. lögin Whoo! Alright Yeah, House Of Jealous Lovers og Echoes.

Eftir tólf lög hurfu þeir af sviðinu, en komu svo aftur og tóku Don Gon Do It og Olio. Þó að þetta hafi bara verið þriðjudagskvöld þá var allt á suðupunkti við sviðið og Luke tók sig til og skutlaði sér út í áhorfendaskarann við mikinn fögnuð. Það eina sem ég saknaði var að þeir skyldu ekki hafa tekið lagið First Gear sem er mitt uppáhalds Rapture-lag þessa dagana. Fyrir utan það var þetta fullkomið.

Trausti Júlíusson






Fleiri fréttir

Sjá meira


×