Áhugamál 14. júní 2007 06:00 Hæfileikinn til að eiga sér áhugamál er eitt það skemmtilegasta sem aðskilur okkur frá hinum dýrategundunum. Aðrir ofur eiginleikar, eins og að vita að einn daginn hrökkvum við upp af, hafa bara skilað okkur bömmerum. Því eru áhugamálin einn besti kostur okkar grimmu tegundar og kæmi til refsilækkunar ef við lentum fyrir tegundadómstóli. Ég hef átt mörg áhugamál og nú er sonur minn þriggja ára strax kominn með mikinn áhuga á bílum. Til hátíðarbrigða fer ég stundum með hann á smurstöð og leyfi honum að fylgjast með kámugum körlum. Til enn meiri hátíðarbrigða förum við feðgar á allar bílasýningar sem boðið er upp á og um síðustu helgi sáum við stórkostlega sýningu Krúserklúbbsins. Þar eiga menn sér sko aldeilis áhugamál. Glaðbeittir karlar stóðu við glæsilegu fornbílana sína alveg að springa úr stolti, sýningarsalurinn eins og risastór dótakassi. Allir bílarnir bandarískir kaggar eða drossíur. Græna byltingin bara martröð í óhugsandi framtíð og hver bíll mörg tonn af krómi, plussi og sælu. Vel er hægt að skilja áhugann á þessum bílum og Ameríku fyrir 40-50 árum. Þarna virtist himnaríki allsnægtanna runnið upp. Annars staðar í Hafnarfirði kom saman fólk með annars konar áhugamál. Fólk með gríðarlegan áhuga á víkingatímabilinu heldur nú hátíð innan girðingar við Fjörukránna. Við vorum snemma á ferð svo víkingarnir voru að gera sig klára. Karlar skeggjaðir og síðhærðir, konur boldangskvenmenn, allir í móskulegum mussum, margir vopnaðir, en það fór alveg með lúkkið að sjá fólk drekka úr áldósum. Mér sýndist annar hver maður grútþunnur, enda kannski hluti af prógramminu að hella í sig að fornum sið. Jafnvel sennilegt að áhugi margra á þessum tíma sé tilkominn vegna löngunar til að endurvekja gleðilæti víkinganna. Ekki að það sé verra áhugamál en hvað annað, eins lengi og menn fara ekki alla leið og skreppa í ránferðir til skoskra strandbæja. Ekkert áhugamál er slæmt eða ómerkilegt eins lengi og það er ekki skaðlegt öðrum. Öll áhugamál göfga, hvort sem það er að safna niðursuðudósum eða að fylgjast með enskum fótboltaútslitum. Það er ekki fyrr en menn eru farnir að skjóta upp í loftið af haglabyssu í Kringlunni eða að keyra á 200 á þjóðvegum landsins að þeir eru komnir út í tómt rugl og áhugamálin hætt að vera þeirra einkamál. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Dr. Gunni Mest lesið Nei, við skulum ekki kaupa handa þeim fleiri vopn Haraldur Ólafsson Skoðun Tímaskekkjan skólaíþróttir Davíð Már Sigurðsson Skoðun Sólarhringur til stefnu Flosi Eiríksson Skoðun Ég kýs mælskan og mannlegan leiðtoga sem rektor Engilbert Sigurðsson Skoðun Er þetta satt eða heyrði ég þetta bara nógu oft? Gunnhildur Birna Gunnarsdóttir Skoðun VR á krossgötum - félagsmenn verða að hafna sundrungu Harpa Sævarsdóttir Skoðun Bakpokinn sem þyngist þegar á brattann sækir Gunnar Úlfarsson Skoðun Kominn tími til að þingmenn axli ábyrgð Björn Ólafsson Skoðun Vanfjármögnun Háskóla Íslands verður að breyta Magnús Karl Magnússon Skoðun Þúsund hjúkrunarrými óskast strax í gær Aríel Pétursson Skoðun
Hæfileikinn til að eiga sér áhugamál er eitt það skemmtilegasta sem aðskilur okkur frá hinum dýrategundunum. Aðrir ofur eiginleikar, eins og að vita að einn daginn hrökkvum við upp af, hafa bara skilað okkur bömmerum. Því eru áhugamálin einn besti kostur okkar grimmu tegundar og kæmi til refsilækkunar ef við lentum fyrir tegundadómstóli. Ég hef átt mörg áhugamál og nú er sonur minn þriggja ára strax kominn með mikinn áhuga á bílum. Til hátíðarbrigða fer ég stundum með hann á smurstöð og leyfi honum að fylgjast með kámugum körlum. Til enn meiri hátíðarbrigða förum við feðgar á allar bílasýningar sem boðið er upp á og um síðustu helgi sáum við stórkostlega sýningu Krúserklúbbsins. Þar eiga menn sér sko aldeilis áhugamál. Glaðbeittir karlar stóðu við glæsilegu fornbílana sína alveg að springa úr stolti, sýningarsalurinn eins og risastór dótakassi. Allir bílarnir bandarískir kaggar eða drossíur. Græna byltingin bara martröð í óhugsandi framtíð og hver bíll mörg tonn af krómi, plussi og sælu. Vel er hægt að skilja áhugann á þessum bílum og Ameríku fyrir 40-50 árum. Þarna virtist himnaríki allsnægtanna runnið upp. Annars staðar í Hafnarfirði kom saman fólk með annars konar áhugamál. Fólk með gríðarlegan áhuga á víkingatímabilinu heldur nú hátíð innan girðingar við Fjörukránna. Við vorum snemma á ferð svo víkingarnir voru að gera sig klára. Karlar skeggjaðir og síðhærðir, konur boldangskvenmenn, allir í móskulegum mussum, margir vopnaðir, en það fór alveg með lúkkið að sjá fólk drekka úr áldósum. Mér sýndist annar hver maður grútþunnur, enda kannski hluti af prógramminu að hella í sig að fornum sið. Jafnvel sennilegt að áhugi margra á þessum tíma sé tilkominn vegna löngunar til að endurvekja gleðilæti víkinganna. Ekki að það sé verra áhugamál en hvað annað, eins lengi og menn fara ekki alla leið og skreppa í ránferðir til skoskra strandbæja. Ekkert áhugamál er slæmt eða ómerkilegt eins lengi og það er ekki skaðlegt öðrum. Öll áhugamál göfga, hvort sem það er að safna niðursuðudósum eða að fylgjast með enskum fótboltaútslitum. Það er ekki fyrr en menn eru farnir að skjóta upp í loftið af haglabyssu í Kringlunni eða að keyra á 200 á þjóðvegum landsins að þeir eru komnir út í tómt rugl og áhugamálin hætt að vera þeirra einkamál.