Innlent

Skora á ráðherra að endurskoða lög um torfæruhjól

Börn hafa hvorki líkamlegan né andlegan þroska til að höndla mótorhjól sem ná allt að 100 km hraða.
Börn hafa hvorki líkamlegan né andlegan þroska til að höndla mótorhjól sem ná allt að 100 km hraða. MYND/Stöð2

Umferðarstofa og forráðamenn Forvarnarhússins skora á samgönguráðherra að endurskoða undanþágu frá umferðarlögum sem leyfa börnum niður í sex ára að keyra torfæruhjól sem ná allt að 100 kílómetra hraða.

Um er að ræða undanþágu frá umferðarlögum sem tók gildi í byrjun júnímánaðar. Hún kveður á um að börn niður í sex ára aldur megi nota mótorhjólin til æfinga og keppni.

Umferðarstofa telur þetta ófært og spyr um barnaverndarsjónarmið í þessu tilliti. Barnavernd Reykjavíkur segir foreldra bera ábyrgð á börnum sínum og þeir þurfi að fara eftir gildandi lögum.

Einar Guðmundsson hjá Forvarnarhúsi segist hafa verulegar áhyggjur af þessari breytingu. Hjól sem falli undir undanþáguna geti náð allt að 100 kílómetra hraða. Börn hafi ekki þroska til að ráða við þessi tæki.

Sigurður Helgason hjá Umferðarstofu segir miklar líkur á að börn slasist ef þau detti af svona hjólum. Tölur um alvarlega slasaða í umferðarslysum sýni að 10 prósent þeirra séu bifhjólamenn sem detti af hjólum sínum. Þeir séu þó yfirleitt sterkbyggðir öfugt við börnin sem séu viðkvæm.

Sigurður og Einar skoruðu báðir á samgönguráðherra að endurskoða lögin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×