TF Sif, þyrla Landhelgisgæslunnar, féll í sjóinn mitt á milli Straumsvíkur og Hafnarfjarðarhafnar um klukkan sjö í kvöld. Fjórir menn voru um borð en þeir sluppu allir ómeiddir. Þyrlan er enn floti í sjónum og reynt verður að hífa hana upp.
Þyrlan var á æfingu með björgunarsveit Hafnarfjarðar þegar slysið átti stað. Þar var hún að æfa hífingar úr sjó þegar hún missti skyndilega afl.
Áhöfn þyrlunnar náði að blása út björgunarbelgi vélarinnar áður en hún skall í sjóinn en þar hvolfdi henni hins vegar. Fjórir menn voru um borð í vélinni og náðu þeir allir að komast út. Björgunarskipið Einar Sigurjónsson, frá björgunarsveit Hafnarfjarðar, var þar skammt frá og bjargaði mönnunum upp úr sjónum. Þeir eru allir ómeiddir og komu allir í land upp úr klukkan níu í kvöld.
TF Sif marar enn í hálfu kafi og sér í hjólin á henni þar sem hún er á hvolfi. Gerð verður tilraun til að hífa TF Sif upp úr sjónum og verður dýpkunarprammi í notaður í það verk. Gert er ráð fyrir því að hann verði kominn á slysstað um klukkan hálf tíu í kvöld.
Björn Bjarnason,dómsmálaráðherra, og Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, flugu yfir svæðið fyrr í kvöld með TF Líf til að kanna aðstæður. Þeir fóru síðan til Straumsvíkur þar sem þeir tóku á móti áhöfn þyrlunnar þegar hún kom í land.