Tónlist

Einar Ágúst í stúdíói í Danmörku

Einar Ágúst situr hér í Lundgaard-stúdíóinu þar sem hann syngur og spilar lag um son sinn Ásmund Goða inn á plötuna.
Einar Ágúst situr hér í Lundgaard-stúdíóinu þar sem hann syngur og spilar lag um son sinn Ásmund Goða inn á plötuna.

Einar Ágúst Víðisson er staddur í Lundgaard-stúdíóinu á Jótlandi þessa vikuna þar sem hann er við upptökur á fyrstu sólóplötunni sinni ásamt hljóðfæraleikurunum úr X-factor.

Einar reiknar með að platan verði komin í verslanir í október. Lítið sást til Einars um nokkurra ára skeið þar til hann steig á svið með gömlu félögum sínum í Skítamóral í lok október á Nasa. Frá áramótum hefur hann spilað og sungið víða ásamt félaga sínum, Júlíusi Jóhannssyni, sem er með honum í Danmörku.

„Við byrjuðum upptökur á mánudagsmorguninn og reynum að spila þetta svolítið „live“,“ segir Einar Ágúst, sem er með góðan hóp tónlistarmanna með sér í stúdíóinu. Hann segir plötuna verða með ellefu lögum sem nokkur eru eftir hann sjálfan.

„Svo eru þrjú erlend lög með íslenskum textum og endur­gerð af einu Sálarlagi, auk þeirra tveggja sem Vignir Snær lagði til,“ segir Einar og bætir við: „Ég myndi segja að þetta væri lífræn tónlist þar sem kassagítarinn kemur mikið við sögu og við reynum að hafa lifandi hljóm á þessu. Ég er að byrja að finna þá stefnu sem mig hefur alltaf langað til að hafa tónlistina mína í enda eru sum laganna minna nokkurra ára gömul og hafa beðið eftir því að þetta verkefni yrði að veruleika.“

Einar Ágúst segir Júlíus, félaga sinn, hafa lagt það til að farið yrði í gerð plötunnar, sem fyrst var hugsuð sem „coverplata“. „Síðan þróaðist þetta þegar vinir mínir buðust til að hjálpa mér að komast á lappirnar aftur,“ segir Einar Ágúst sem er á góðu róli í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×