Skoðun

Vopnasalar borða líka fisk

Undanfarnar vikur höfum við fylgst með óhefðbundnum aðgerðum um það bil 30 manna hóps gegn álverum og ýmsu fleiru, með dyggri aðstoð sumra fjölmiðla. Í sumum tilvikum höfum við einnig hlýtt á viðtöl við talsmenn hópsins. Þar hefur meðal annars ítrekað komið fram að mótmæli gegn álverum snúist um að ál sé notað til vopnaframleiðslu og í „hernaði".



Nú vitum við auðvitað öll að ál er notað til ótal margra hluta, til dæmis í matvæla- og lyfjaiðnaði, í bíla, skip, flugvélar, ljósastaura, hljómflutningstæki, myndavélar, úðabrúsa, farsíma… og þannig mætti afar lengi telja. Ætla verður að mótmælendurnir fyrrnefndu takmarki af fremsta megni eigin notkun á öllu sem áli tengist.



Hvað vopnaframleiðsluna varðar þá vitum við hins vegar líka öll að þar koma ýmis efni og aðrar bjargir til sögunnar en ál. Þess má til dæmis geta að íslensk hugbúnaðarfyrirtæki hafa þróað hugbúnað samkvæmt samningum við bæði breska og bandaríska herinn. Gott ef norski herinn átti ekki einhvern tímann samstarf við íslenska framleiðendur hlífðarfatnaðar. Allt er þetta gott og blessað. Þarna er um að ræða arðbær viðskipti við bandamenn, ríki sem við höfum áratugum saman starfað með í varnarbandalagi og höfum átt við beint samstarf um varnir Íslands.

Hlusta hermenn á Björk?

Eða hvað? Geta þessi hugbúnaðarfyrirtæki átt von á málningarslettum á sín húsakynni? Að starfsemi þeirra verði trufluð þar til fjölmiðlar hafa náð að mynda uppákomurnar? En hvað þá með aðra aðila sem hafa framleitt varning sem hermenn og jafnvel hershöfðingjar nota? Ætli bandarískir hermenn hlusti á Björk? Ætli sovéskir hershöfðingjar hafi jafnvel sporðrennt íslenskri saltsíld áður en haldið var með skriðdrekana inn í Búdapest eða Prag? Hver er þá samviska fólksins sem saltaði hér síldina niður í tunnur? Hvað ef jafnvel vopnaframleiðendur, til dæmis í Svíþjóð, borða fisk? Getum við þá verið að veiða hann og selja þangað út?

Er kannski orðið tímabært að fjölmiðlar fari að hlífa okkur við þessum málflutningi?

Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×