Erlent

Sex manns láta lífið í sprengingum

Hermenn að störfum fyrir utan næturklúbb þar sem ein af sprengjunum sprakk.
Hermenn að störfum fyrir utan næturklúbb þar sem ein af sprengjunum sprakk. MYND/AP

Sex manns létu lífið og fleiri en 50 slösuðust þegar fleiri en 30 sprengjur sprungu í suðurhluta Taílands í gær. Árásirnar voru gerðar á skemmtistaði og hótel í borgum og bæjum á svæðinu. Stjórnvöld í Taílandi halda í dag neyðarfund vegna tilræðanna. Talið er að múslimskir aðskilnaðarsinnar standi að baki árásunum.

Talsmaður lögreglu sagði árásirnar gerðar til þess að sýna stjórnvöldum fram á að öryggisaðgerðir þeirra hefðu engin áhrif á starfsemi aðskilnaðarsinna. Á föstudaginn síðastliðinn sögðust stjórnvöld ætla að halda viðræður við fulltrúa aðskilnaðarsinna til þess að auka skilning á milli deiluaðila og eru árásirnar í gær því stjórnvöldum mikið áfall.

Fleiri en tvö þúsund manns hafa látið lífið undanfarin þrjú ár í átökum á milli stjórnvalda og aðskilnaðarsinna. Múslimar eru fjölmennir í suðurhluta landsins en meirihluti landsmanna aðhyllist búddisma. Árásir aðskilnaðarsinna hafa aukist til muna eftir að herinn tók völdin í Taílandi í september á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×