Innlent

Geðfatlaðir fá húsnæði um allt land

Hátt í 70 geðfatlaðir fá viðvarandi húsnæði um allt land á þessu ári og er áætlað að rúmlega helmingur þeirra fái það afhent í sumar. Þetta er liður átaks í þjónustu við geðfatlað fólk sem félagsmálaráðuneytið kynnti í lok síðasta árs.

Mikið hefur verið fjallað um búsetvanda geðfatlaða undanfarna daga. Í fréttum stöðvar tvö fyrr í vikunni sagði sviðsstjóri geðdeilda Landspítalans að hátt í fimmtíu manns á geðdeildum spítalans biðu eftir viðvarandi búsetu. Deildirnar væru yfirfullar vegna þeirra og lítið pláss væri fyrr þá sem lagðir væru inn á spítalann í bráða-og neyðartilvikum.

Í stefnu Félagsmálaráðuneytisins í málefnum geðfatlaðra sem kynnt var í fyrra var lögð áhersla á að búsetuvandi geðfatlaðra yrði leystur á næstu fimm árum.

67 manns af þeim 160 sem verkefnið tekur til voru og eru í þjónustu á geðsviði Landspítalans. Nú þegar hefur verið yfirtekin þjónusta við 17 manns af geðsviði Landspítalans og eru þeir komnir fast í húsnæði í Reykjavík.

Í ár er gert ráð fyrir að 21 komist í fast húsnæði í Reykjavík, fjórir á Akureyri, sex á Ísafirði, fjórir á Egilsstöðum, fimm í Reykjanesbæ, sex í Hafnarfirði, þrír á Selfossi og þrír í Borgarnesi.

Einar Njálsson verkefnastjóri átaksins hjá félagsmálaráðuneytinu segir að rúmlega helmingur af þeim sjötíu sem fái húsnæði úthlutað í ár fái það afhent á tímabilinu júní til september. Restin fái húsnæðið undir lok árs.

Áætlað er að 88 manns til viðbótar fái fasta búsetu næstu þrjú árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×