Fótbolti

Nedved hafnaði Inter í sumar

Litlu munaði að Pavel Nedved og Dejan Stankovic hjá Inter hefðu orðið liðsfélagar í sumar.
Litlu munaði að Pavel Nedved og Dejan Stankovic hjá Inter hefðu orðið liðsfélagar í sumar. MYND/AFP

Tékkneski miðjumaðurinn Pavel Nedved hefur greint frá því að hann hafnaði tilboði frá meisturum Inter Milan í sumar. Nedved er sem fyrr á mála hjá Juventus og spilað með liðinu í næstefstu deild á Ítalíu á síðustu leiktíð. Nedved hyggst halda tryggð sinni við röndótta stórveldið áfram og verður að teljast líklegt að hann klári ferilinn með liðinu. Nedved er 34 ára gamall.

„Ég fékk nokkur tilboð í sumar, þar á meðal frá Inter," sagði Nedved. „Ég hef hins vegar ekki áhuga á að fara og það stóð aldrei neitt annað til en að vera áfram hjá Juve og hjálpa liðinu að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á ný."

Litlu munaði að Nedved hefði lagt knattspyrnuskóna á hilluna eftir að Juventus var dæmt niður um deild en eftir að hafa hugsað málið til enda sá Nedved að áskorunin við að hefja Juve til vegs og virðingar á ný var of stór til að hafna henni. „Og við ætlum að vera í toppbaráttunni í ár," segir Nedved.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×