Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu tóku við sér í gær eftir talsverða lækkun í vikunni eftir að seðlabanki Bandaríkjanna ákvað að lækka millibankavexti lánastofnana um 50 punkta í því augnamiði að draga úr óróa á fjármálamarkaði.
Þetta kemur í viðbót við milljarða dala innlegg bankans á fjármálamarkað en seðlabankar nokkurra landa hafa opnað pyngjur sínar til að gera bönkum kleift að sækja sé fjármagn á lágum kjörum til að koma í veg fyrir lausafjárskort.
Hlutabréfamarkaður í Asíu tók hins vegar enn eina dýfuna en fjárfestar þar gerðu ráð fyrir frekari hrakfregnum af bandarískum fasteignalánamarkaði auk þess sem margir þeirra losuðu um áhættusamar fjárfestingar. Nikkei-vísitalan féll við þetta um heil 5,4 prósent í kauphöllinni í Japan en Kospi-vísitalan í Suður-Kóreu fór niður um 3,2 prósent.
Þrátt fyrir inngrip seðlabankans vestanhafs ekki ekki víst hvort það dugi til að róa markaðinn en fréttastofan Associated Press segir óvíst hvað framtíðin ber í skauti sér.