Skoðun

Starfmannaekla í leik og grunnskólum

Sú staða sem upp er komin vegna manneklu bæði á leikskólum og í grunnskólum borgarinnar kallar á tafarlausar aðgerðir borgaryfirvalda. Nauðsynlegt er að halda góðri samstöðu meðal þeirra starfsmanna sem þegar eru við störf og tryggja nauðsynlega þjónustu. Villandi umræða hefur verið í fjölmiðlum í kjölfar samþykktar Leikskólaráðs um álagsgreiðslur vegna manneklu á leikskólum borgarinnar. Ég, sem talsmaður Samfylkingarinnar í málefnum leikskóla, vil taka fram að ekki er minnst á það í samþykkt leikskólaráðs að einungis þeir leikskólar sem hafi úr afgangi á fjárhagsáætlun að spila geti nýtt sér álagsgreiðslurnar. Sú túlkun er höfð eftir Ragnhildi Erlu Bjarnadóttur, sviðstjóra leikskólasviðs Reykjavíkur á Mbl.is að fundinum loknum.

Það hlýtur að vera það álag sem skapast á leikskóla sem ákvarðar álagsgreiðslurnar, ekki hvort viðkomandi skóli á rekstrarafgang eða ekki. Það að halda úti fullri starfsemi leikskóla í viðvarandi manneklu er mjög kostnaðarsamt, til dæmis vegna yfirvinnu og meiri afleysinga. Því er ekkert samasem-merki milli þess að leikskóli eigi við manneklu að stríða og að hann eigi afgang af fjárveitingu.

Á leikskólum Reykjavíkur er hátt í 60% starfsfólks ekki með leikskólakennaramenntun. Það starfsfólk á stóran þátt í því að að halda úti frábæru starfi leikskólanna og er ómetanlegt. Því starfsfólki verður einnig að umbuna á álagstímum en Samfylkingin fylgdi þessu eftir með fyrirspurn í borgarráði daginn eftir fund leikskólaráðs.

Í stjórn ÍTR á föstudag lögðu fulltrúar Samfylkingarinnar fram tillögu sem samþykkt var samhljóða, um að því verði beint til starfshóps borgarstjóra um starfsmannaeklu í skólum og frístundaheimilum að kannaður verði sá möguleiki að greiða námsmönnum við störf á frístundaheimilum námsstyrki. Greiðslur námsstyrkja gætu verið í lok vetrar, þegar starfsmaður hefur bæði unnið veturinn á frístundaheimilinu og lokið námsönn. Með þessu væri bæði farin ný og uppbyggileg leið í að laða að starfsfólk auk þess sem stöðugleiki í starfi frístundaheimilanna yfir veturinn væri enn frekar tryggður. Hugsanlegt era að nýta þessa leið einnig á leikskólunum og laða þannig námsmenn í hlutastörf t.d. í svokallaðar skilastöður seinnipart dags. Samfylkingin lítur svo á að skólar, hvort sem er leik- eða grunnskólar séu grunnstoðir samfélagsins. Borgaryfirvöldum ber að leysa þann brýna vanda sem nú hefur skapast með öllum tiltækum ráðum, í sátt við þá sem þar starfa og án þess að þjónustuskerðing bitni á börnunum í borginni.

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingar..




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×