Tónlist

Jónas með tónleika

Jónas Ingimundarson píanóleikari fagnar fjörutíu ára starfsafmæli um þessar mundir.
Jónas Ingimundarson píanóleikari fagnar fjörutíu ára starfsafmæli um þessar mundir.

Jónas Ingimundarson píanóleikari verður með tvenna tónleika á næstunni utan höfuðborgarinnar. Á föstudagskvöld spilar hann í kirkjunni í Borgarnesi. Þeir tónleikar hefjast kl. 20, og annan fimmtudag verður hann með tónleika á Sögusetrinu á Hvolsvelli, kl. 21.

Jónas hóf tónlistarnám sitt eftir fermingu hjá frú Leopoldínu Eiríks sumarið 1958. Hann stundaði tónlistarnám við Tónlistarskólann í Reykjavík og framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Vínarborg. Jónas hefur síðan starfað sem píanóleikari, tónlistarkennari og kórstjóri. Hann hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi og komið fram víða í Evrópu og Bandaríkjunum, ýmist einn eða með öðrum, einkum söngvurum.

Um þessar mundir eru fjörutíu ár síðan Tónlistarfélag Borgarfjarðar hóf starfsemi, en Jónas sótti félagið heim þegar á fyrsta starfsárinu og lék þar á tónleikum, þá nýbyrjaður á sínum farsæla ferli.

Á dagskrá tónleikanna verða þrjár píanósónötur eftir Beethoven. Tónleikar Jónasar á Hvolsvelli eru liður í menningarveislu Sögusetursins þar sem áhersla er lögð á að kynna bæði íbúum og gestum sveitarfélagsins fyrir menningararfleifð svæðisins.

Þá eru listamenn tengdir svæðinu í hávegum hafðir. Jónas er úr Landeyjum, fæddur 30. maí 1944 á Bergþórshvoli í Rangárþingi eystra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×