Paolo Cannavaro var í dag valinn í ítalska landsliðshópinn í fyrsta sinn. Paolo er bróðir Fabio Cannavaro, fyrirliða landsliðsins, og leikur með Napoli. Mun hann taka þátt í vináttulandsleiknum gegn Suður-Afríku á miðvikudag.
„Þetta er mikill heiður. Draumur sem ég hef átt lengi hefur ræst," sagði Paolo en hann fær þó ekki að leika við hlið bróður síns. Fabio Cannavaro verður hvíldur í leiknum á miðvikudag.
Roberto Donadoni, landsliðsþjálfari Ítalíu, hvílir lykilmenn í leiknum gegn Suður-Afríku og valdi alls fjóra nýliða í hópinn. Auk Paolo eru það Andrea Dossena hjá Udinese, Antonio Nocerino leikmaður Juventus og svo Alessandro Rosin hjá Torino.