Viðskipti innlent

Bankahólfið: Skattaparadís Ingólfs

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fór á kostum á ráðstefnu Glitnis í New York um jarðvarmavirkjanir. Þar dró hann upp skemmtilega mynd af því hvernig Reykjavík væri eina höfuðborgin sem hlyti nafn af jarðvarma, þegar Ingólfur Arnarson nefndi staðinn eftir reyknum sem steig upp frá heitum laugunum. Ólafur vísaði til fjármálalegs bakgrunns þjóðar­innar í ljósi þess að landnámsmenn hefðu flúið skattheimtu Noregskonungs og því mætti segja að landið væri fyrsta skattaparadísin. Krónunni hlíft

Ólafur Ragnar fór ekki síður á kostum um kvöldið í mikilli veislu. Þar kynnti hann gest veislunnar, sjálfan Georges Soros. Ýmsum þótti heimurinn hafa þróast skemmtilega þegar fyrrverandi formaður vinstriflokks á Íslandi fór fögrum orðum um Soros, sem var löngum persónugervingur hins skeytingarlausa kapítalisma. Soros gerði sem kunnugt er fræga árás á breska pundið og felldi það í upphafi níunda áratugarins. Krónan kæmist væntanlega fyrir í rassvasanum hjá Soros, en í veislunni munu menn hafa tekið af honum loforð um að láta litlu myntina okkar vera.

Ótraustir pörupiltar

Heiti á fyrirtækjum geta stundum staðið lengi í fólki. Skiljanlega, svo sem þar sem bestu nöfnin eru stundum löngu frátekin. Sumir bregða því á það ráð að taka upp undarleg en skemmtileg og stundum al­íslensk heiti. Forsvarsmenn nýjasta götublaðsins, Kjallarans, eru nokkuð frumlegir í nafnavali. Útgáfufélagið heitir Pörupiltar ehf. en í lýsingu á því segir að það eigi sér engan fjárhags­legan bakhjarl. Vafasöm lýsing það, svo ekki sé meira sagt. Nú er bara að vona að þeir geri ekkert af sér þar sem bakhjarlinn virðist harla ótraustur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×