Innlent

Landsvirkjun hefur kverkatak á Þjórsárverum

MYND/E.Ól

Náttúrverndarsamtök Íslands segja Landsvirkjun enn hafa kverkatak á Þjórsárverum í umboði Sjálfstæðisflokksins þrátt fyrir yfirlýsingar í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Í tilkynningu frá Náttúruverndarsamtökunum segir að ekki verði annað séð en að yfirlýsingar forystumanna stjórnarflokkana um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum stangist á.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hafi sagt í Kastljósi á miðvikudagskvöld að það væri skýrt í hennar huga að ekki væri hægt að ráðast í Norðlingaölduveitu miðað við yfirlýsingar í stjórnarsáttmálanum. Geir H. Haarde, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hins vegar sagt í fréttum RÚV í gærkvöld að ekkert í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kvæði sérstaklega á um að stöðva áform Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu. Þá hafi forsætisráðherra bent á að flokkarnir hafi haft ólíka stefnu í þessu máli.

Segja Nátttúruverndarsamtökin að samkvæmt þessu blasi við að ekki sé samkomulag innan ríkisstjórnarinnar um stækka friðland Þjórsárvera til suðurs þannig að Norðlingaölduveita verði úr sögunni. „Þetta hlýtur óhjákvæmilega að draga verulega úr trúverðugleika ríkisstjórnarinnar í náttúruverndarmálum. Af þessu leiðir að Landsvirkjun mun enn hafa kverkatak á Þjórsárverum í umboði Sjálfstæðisflokksins," segir að endingu í yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×