Innlent

Fíkniefnaneysla reykvískra ungmenna minni en í mörgum Evrópuborgum

Fíkniefnaneysla ungmenna í Reykjavík hefur dregist saman síðustu tíu árin og er nú minni en í mörgum borgum Evrópu. Þær borgir sækja nú þekkingu hingað til lands í því augnamiði að draga úr fíkniefnaneyslu evrópskra ungmenna.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, efndi í dag til fundar á Bessastöðum til að fylgja eftir Forvarnardeginum sem haldinn var síðastliðið haust. Á fundinum var einnig fjallað um samstarf Evrópuborga í forvarnarmálum og kynntar niðurstöður nýrrar samanburðarrannsóknar á fíkniefnaneyslu ungmenna í níu Evrópuborgum.

Rannsóknin sýnir að neyslan er minni í Reykjavík en í samanburðarborgunum. Hún sýnir einnig að fíkniefnaneysla barna og ungmenna er minnst í þeim borgum Evrópu þar sem gripið hefur verið til markvissra forvarnaraðgerða.

Inga Dóra Sigfúsdóttir, deildarforseti í kennslufræði og lýðheilsudeild í Háskólanum í Reykjavík, hefur komið að rannsókninni og segir Íslendinga hafa náð góðum árangri í fíkniefnaforvörnum.

Hún segir helstu forvarnaraðferðir vera að ná til unglinga og foreldra og leggja áherslu á að samverustundir skipti máli. Að virða beri útivistarreglur og að eftirlitslaus partý séu óæskileg, svo eitthvað sé nefnt.

Þá hefur verið lögð áhersla á mikilvægi þess að tómstundastarf sé skipulagt og jafnframt hamrað á því að því að árangur náist ekki nema foreldrar, skólinn og þeir sem skipuleggja tómstundastarf unglinga vinni saman.

Inga Dóra segir þær evrópsku borgir sem taka þátt í forvarnarverkefninu hafa mikinn áhuga á íslenskum forvarnaraðferðum. Stefnt sé að því að kynna þær í borgunum á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×