Bakþankar

Boðun í skoðun

Í fyrradag hlotnaðist mér sá heiður að fá að vera viðstödd setningu Alþingis. Þrátt fyrir að vera almennt frekar léleg í uppskrúfuðu prótókolli varð ég að svala forvitninni og fylgjast með þessari virðulegu athöfn að minnsta kosti einu sinni. Eftir að hafa smogið inn í Dómkirkjuna í gegnum skrúðhúsið var mér vísað til sætis fyrir aftan auðar raðir ætlaðar háttvirtum og hæstvirtum. Hátíðleikinn lá í loftinu og spennan náði hámarki þegar aðaldyrnar opnuðust loks.

Þrátt fyrir að vera pönkari í hjartanu er ég hrifnæm eins og barn. Þegar spariklædd skrúðganga forsetahjóna, biskups og ríkisstjórnar streymdi inn kirkjugólfið varð andrúmsloftið fáein augnablik svo þrungið lotningu fyrir stund og stað að ég komst við. Horfði klökk á allt þetta góða fólk sem fórnar sér landi og þjóð til heilla. Svo kom stjórnarandstaðan en þá bráði væmnin af og ég endurheimti steinhjarta pönkarans.

Eftir messugjörð var komið að hinni spennandi stund þegar við viðhengin fengum að elta skrúðgönguna í gegnum heiðursvörð lögreglunnar til baka í þinghúsið. Kitlandi eftirvænting um mótmæli og almenn róstur á Austurvelli breyttust í vonbrigði þegar kom í ljós að enginn nema þrjár gamlar konur höfðu nennt að mæta til að fylgjast með. Það hvarflaði ekki að þeim að henda einu einasta eggi svo hin pena stund hélt áfram að vera rosalega pen.

Og eftir að hafa setið á byltingarsinnanum í sjálfri mér í heilar tvær klukkustundir var ég næstum farin að trúa því sjálf að ég væri í alvörunni hrikalega pen. En ef einhvern tímann flögraði að mér að ofmetnast í hinum virðulega félagsskap kom veruleikinn mér snarlega niður á jörðina um leið og út var komið. Ég fékk að vísu ekkert egg í hausinn frá æstum mótmælendum, en bíllinn minn - sem lagt var í hæstvirt bílastæði Alþingis - var í bak og fyrir skreyttur þjösnalegum límmiðum frá lögreglunni um boðun í skoðun. Hlutaðeigandi lögregluþjónn er auðsjáanlega dugleg og praktísk manneskja því fyrst hann þurfti hvort eð er að standa heiðursvörð niðri í bæ var ágætt að nota ferðina og sekta einhverja trassa. Og gaf mér í leiðinni dýrmæta lexíu í reiðistjórnun, auðmýkt og æðruleysi.






×