Orf líftækni hefur hafið samstarf við stærstu samsteypu lyfjafyrirtækja í Kína, Sinopharm.
„Við teljum að þetta samkomulag hafi mikla þýðingu því hér gefst okkur tækifæri til að koma okkar vörum inn á nýjan markað. Sérstaklega er þetta spennandi því við erum að tala öflugt kínverskt lyfjafyrirtæki sem hefur mikinn áhuga á þessu samstarfi. Þannig að við lítum á þetta sem einstakt tækifæri," segir Björn L. Örvar, framkvæmdastjóri Orf.
Með samkomulaginu leggja Orf og Sinopharm drög að nánu samstarfi um lyfjaþróun prótínlyfja sem síðar meir verða framleidd á Íslandi fyrir prótínlyfjamarkað í Kína.
„Þetta gengur út á það að við erum með ákveðið prótín nú þegar sem við erum að byrja framleiðslu á. Þetta kínverska fyrirtæki mun svo halda utan um lyfjaþróun í Kína. Síðan hafa þeir áhuga á að taka að sér markaðsstarf og sölu á þessum prótínum. Og markaðurinn er gríðarlega stór," segir Björn.
Hann segir lyf í þessum flokki til dæmis gefin eftir krabbameinsmeðferð þegar byggja þurfi upp fjölda hvítra blóðkorna. Lyfin séu mjög dýr, jafnvel á Vesturlöndum. Framleiðslukostnaður hjá Orf sé hins vegar mun lægri en hjá öðrum fyrirtækjum. Þeir munu því ólíkt flestum öðrum flytja ódýra vöru inn til Kína en ekki út.