Innlent

Mokveiði hjá línubátum í Grindavík

Mokveiði hefur verið hjá línubátum í Grindavík og hefur rúmum fimm hundruð tonnum af fiski verið landað síðustu tvo daga. Mest veiðist af þorski og segjast menn aldrei hafa veitt svona vel. Hafnarstjórinn í Grindavík segir þessa miklu veiði heldur óvenjulega miðað við fyrri ár.

Hátt í 20 Línubátar komu drekkhlaðnir eftir veiðar fyrir sunnan og suðaustan af Grindavík í gær. Mikil bræla hefur verið undanfarnar vikur en síðustu daga hafa menn mokveitt. Rafn Arnarson skipstjóri á línubátnum Óla á stað kom til hafnar í gær með hátt í 16 tonn.

Um kvöldmatarleytið í gærkvöld voru menn í óða önn að landa aflanum og nokkrir bátar biðu í röðum eftir því að komast að. Sverrir Vilbergsson hafnarstjóri í Grindavík segir vertíðina ekki hafa verið svona góða í mörg ár.Sverrir segir að menn hafi að minnsta kosti fengið fullfermi einu sinni og sumir hafi þurft að snúa aftur á miðin til að sækja allan aflann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×