Innlent

Lóðir í Úlfarsárdal umsetnar

Samtals bárust 374 umsóknir um lóðir í Úlfarsárdal en umsóknarfrestur rann út í dag kl. 16:15. Í boði voru samtals 115 lóðir og gat hver umsækjandi sótt um eina lóð. 266 sóttust eftir einbýlishúsalóð, 47 eftir parhúsalóð, 24 eftir raðhúsalóð og 37 eftir fjölbýlishúsalóð.

Dregið verður um þá umsækjendur sem fá lóðir í þessum áfanga þegar farið hefur verið yfir allar umsóknirnar. Við útdráttinn fær hver og einn svokallað valnúmer sem segir til um í hvaða röð þeir velja sér lóðir. Gert er ráð fyrir að útdrátturinn fari fram um miðja næstu viku og mun Reiknistofnun Háskóla Íslands annast hann að viðstöddum fulltrúa sýslumannsins í Reykjavík.

Að útdrættinum loknum verður listi yfir viðkomandi umsækjendur birtur á heimasíðu Framkvæmdasviðs www.reykjavik.is/fs. Val á lóðum fer fram á sérstökum valfundi í síðustu viku júnímánaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×