Aðventa 5. desember 2007 00:01 Í gamla daga lagði íslenskur almúgi sjáanlega mikla áherslu á óheft flæði í rýminu. Að minnsta kosti var oft glettilega mikill samhljómur í moldargólfum, þiljum og torfþaki sem var allt nota bene úr náttúrulegum hráefnum. Þetta var löngu fyrir tíma almennrar vitundarvakningar í innanhússhönnun og því greinilega meðfæddur talent. Undirbúningur jólanna var líka í þessum minimalíska stíl. Fáar en vel valdar skreytingar nutu sín sérlega vel í rýminu þarna í sveitinni. Eini verulegi dagamunurinn var stórhreingerningar sem ráðist var í af offorsi: Bærinn sópaður sundur og saman og öllu kviku stungið í bað. Reyndar öllum í eina og sama baðvatnið, svo ekki er víst hversu tandurhreinir hinir síðustu í röðinni urðu. Eigi að síður var mikil félagsleg pressa að hafa á jólum allt skínandi hreint. Og árlegar stórhreingerningar voru ærið lífseigar. Langt fram eftir síðustu öld þótti ekki við hæfi annað en sótthreinsa hvert skúmaskot á aðventu og taka síðustu strokurnar síðdegis á aðfangadag. Samhliða auðvitað að sauma jólafötin á fjölskylduna og baka tólf eða átján sortir í box og líma fyrir. Því áður en við vöndumst greiðum aðgangi að öllu - alltaf - var smákaka nokkuð sem hægt var að láta sig hlakka til að fá. Eftir að rauðsokkurnar frelsuðu okkur frá þessu árlega spretthlaupi hefur leitin að inntakinu breyst. Í fyrndinni fólst kikkið í að vera grútskítugur og glorsoltinn í myrkrinu en fá svo bað, mat og tólgarkerti. Síðar að spæna upp sjaldgæfan sykur eftir margra vikna akkorð við skúringar. Nú til dags er uppi hávær krafa um að allir skuli njóta aðventunnar. Það er mikil vinna. Njóta þess að dúlla við að föndra og skreyta smátt og smátt. Njóta þess að skreppa á tónleika og kaffihús. Njóta þess að baka með börnunum lífrænar og sykurlausar speltkökur. Taka þátt í keppninni um flottasta piparkökuhúsið. Halda aðventuboð annað slagið og hafa sultaðan engifer og paté innan seilingar ef óvænta gesti ber að garði. Hamra á stemmingunni baki brotnu með kertum og huggulegri jólatónlist. Gera konfekt. Baka sörur. Halda í hefðirnar. Anda að sér ilmi jólanna. Umfram allt skulu þó allir vera rosa afslappaðir. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þórhildur Elín Elínardóttir Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun
Í gamla daga lagði íslenskur almúgi sjáanlega mikla áherslu á óheft flæði í rýminu. Að minnsta kosti var oft glettilega mikill samhljómur í moldargólfum, þiljum og torfþaki sem var allt nota bene úr náttúrulegum hráefnum. Þetta var löngu fyrir tíma almennrar vitundarvakningar í innanhússhönnun og því greinilega meðfæddur talent. Undirbúningur jólanna var líka í þessum minimalíska stíl. Fáar en vel valdar skreytingar nutu sín sérlega vel í rýminu þarna í sveitinni. Eini verulegi dagamunurinn var stórhreingerningar sem ráðist var í af offorsi: Bærinn sópaður sundur og saman og öllu kviku stungið í bað. Reyndar öllum í eina og sama baðvatnið, svo ekki er víst hversu tandurhreinir hinir síðustu í röðinni urðu. Eigi að síður var mikil félagsleg pressa að hafa á jólum allt skínandi hreint. Og árlegar stórhreingerningar voru ærið lífseigar. Langt fram eftir síðustu öld þótti ekki við hæfi annað en sótthreinsa hvert skúmaskot á aðventu og taka síðustu strokurnar síðdegis á aðfangadag. Samhliða auðvitað að sauma jólafötin á fjölskylduna og baka tólf eða átján sortir í box og líma fyrir. Því áður en við vöndumst greiðum aðgangi að öllu - alltaf - var smákaka nokkuð sem hægt var að láta sig hlakka til að fá. Eftir að rauðsokkurnar frelsuðu okkur frá þessu árlega spretthlaupi hefur leitin að inntakinu breyst. Í fyrndinni fólst kikkið í að vera grútskítugur og glorsoltinn í myrkrinu en fá svo bað, mat og tólgarkerti. Síðar að spæna upp sjaldgæfan sykur eftir margra vikna akkorð við skúringar. Nú til dags er uppi hávær krafa um að allir skuli njóta aðventunnar. Það er mikil vinna. Njóta þess að dúlla við að föndra og skreyta smátt og smátt. Njóta þess að skreppa á tónleika og kaffihús. Njóta þess að baka með börnunum lífrænar og sykurlausar speltkökur. Taka þátt í keppninni um flottasta piparkökuhúsið. Halda aðventuboð annað slagið og hafa sultaðan engifer og paté innan seilingar ef óvænta gesti ber að garði. Hamra á stemmingunni baki brotnu með kertum og huggulegri jólatónlist. Gera konfekt. Baka sörur. Halda í hefðirnar. Anda að sér ilmi jólanna. Umfram allt skulu þó allir vera rosa afslappaðir.