Erlent

Miliband sagður nýr utanríkisráðherra Bretlands

Jónas Haraldsson skrifar
David Miliband verður yngsti utanríkisráðherra í marga áratugi.
David Miliband verður yngsti utanríkisráðherra í marga áratugi. MYND/AFP

Gordon Brown, nýr forsætisráðherra Bretlands, hefur tilnefnt David Miliband umhverfisráðherra sem nýjan utanríkisráðherra samkvæmt heimildum Sky-fréttastofunnar. Hann tekur við af Margaret Beckett. Þá herma heimildir Sky að Douglas Alexander verði nýr ráðherra þróunarmála.

Búist er við því að Brown stokki upp í ríkisstjórninni og reiknað er með tilkynningu frá honum um skipanir hans í embætti rétt fyrir hádegi í dag. Í framhaldi af því verður síðan haldinn hans fyrsti ríkisstjórnarfundur. Miklar breytingar verða frá stjórn Tony Blair. Auk Margaretar Beckett mun John Reid líklega hætta sem innanríkisráðherra.

Brown hefur lofað nýrri ríkisstjórn með nýjar áherslur. Búist er við því að hann muni nefna Alistair Darling sem fjármálaráðherra, en hann hefur lengi verið bandamaður Browns. Fréttaskýrendur telja að Jack Straw, fyrrverandi utanríkisráðherra, gæti orðið dómsmálaráðherra.

Reynist heimild Sky réttar er Miliband einhver yngsti utanríkisráðherra Bretlands undanfarna áratugi, en hann er aðeins 41 árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×