Tónlist

Fá innblástur úr fréttunum

Alex Webster (lengst til vinstri) og félagar í Cannibal Corpse eru á leiðinni til landins.
Alex Webster (lengst til vinstri) og félagar í Cannibal Corpse eru á leiðinni til landins.

Bandarísku dauðarokkararnir í Cannibal Corpse halda tvenna tónleika á Nasa um næstu mánaðarmót. Freyr Bjarnason talaði við bassaleikarann Alex Webster sem er annar af tveimur upprunalegum meðlimum sveitarinnar.

Cannibal Corpse státar af þeim árangri að vera söluhæsta dauðarokkssveit sögunnar með yfir eina milljón hljómplatna selda og fyrir að vera fyrsta dauðarokkssveitin til að koma plötu á Billboard-vinsældarlistann í Bandaríkjunum. Öðlaðist hún jafnframt nokkra frægð á síðasta áratug þegar henni brá fyrir í gamanmyndinni Ace Ventura með Jim Carrey í aðalhlutverki.

Raðmorðingjar og hryllingurHljómsveitin var stofnuð í Tampa í Flórída árið 1988. Tveimur árum síðar kom út fyrsta plata hennar, Eaten Back Alive, sem vakti strax hörð viðbrögð samfélagsins. Tónlistin þótti hraðari og aðgangsharðari en áður hafði þekkst en það voru textarnir sem fóru fyrir brjóstið hjá almenningi enda fjölluðu þeir um raðmorðingja, uppvakninga og almennan hrylling. Lög á borð við Hammer Smashed Face, Meed Hook Sodomy og Addicted To Vaginal Skin fengu mikla gagnrýni fyrir ofbeldisfulla texta og ekki bættu næstu tvær plötur Cannibal Corpse úr skák; Butcered At Birth og Tomb of the Mutilated. Hljómsveitin var bönnuð í Ástralíu, Nýja Sjálandi og Kóreu og platan Butchered at Birth var bönnuð í Þýskalandi rétt eins og innflutningur á fyrstu plötum sveitarinnar. Það bann var afnumið á síðasta ári. Harðari með aldrinumTíunda hljóðversplata Cannibal Corpse, Kill, kom út á síðasta ári. Bassaleikarinn Alex Webster er hæstánægður með útkomuna. „Þetta er fyrsta platan sem við gerum með upptökustjóranum Erik Rutan og hann gerði vel í því að ná fram karakter tónlistarinnar. Hljómurinn var miklu hrárri og ofbeldisfyllri en á síðustu plötum okkar,“ segir Webster. „Takmark okkar sem grimm dauðarokkshljómsveit er að halda áfram að vera grimm. Við viljum þróast í þyngri áttir en ekki mýkri. Þegar við byrjuðum í Cannibal Corpse ungir að árum voru uppi hljómveitir við höfðum dáðst að sem ollu okkur vonbrigðum með því að breyta stílnum sínum. Við vildum vera vissir um að við yrðum aldrei þannig.“ Ofbeldi í fréttunumWebster vill ekki meina að það sé erfitt að semja textana á plöturnar. „Það er svo mikið af ofbeldi í heiminum og síðan eru framleiddar ofbeldisfullar kvikmyndir og fleira í þeim dúr. Sumir textarnir eru óraunsæir og yfirnáttúrulegir eins og þeir sem fjalla um uppvakninga. Þannig umfjöllunarefni koma meira frá ímyndunarafli okkar, eða kannski sem innblástur úr vísindaskáldsögum og hryllingsmyndum sem við horfum á,“ segir Webster. „Sum lögin sem eru um raðmorðingja og fleira því um líkt eru meira byggð á raunveruleikanum og maður getur fengið mikinn innblástur með því að horfa á fréttatímann. Því miður er mikið um ofbeldi í heiminum og ofbeldisfullt afþreyingarefni er einfaldlega viðbrögð við því.“ Truflaðar og ógeðslegarWebster veit allt um gagnrýnina á Cannibal Corpse og skilur hana upp að vissu marki. „Ef fólk gagnrýnir okkur vegna innihalds textanna get ég skilið það en oft skilur fólk ekki fyrir hverju við stöndum. Það heldur kannski að við séum að leggja blessun okkar yfir þessa hegðun sem við syngjum um, sem við gerum auðvitað ekki. Við nálgumst textana eins og hryllingsbókahöfundar eða hryllingsmyndaleikstjórar nálgast sín verk. Það er augljóst að þeir vilja ekki að fólk sem les bækurnar eða horfir á myndirnar dáist að þessum illu persónum. Við viljum ekki heldur að fólk dáist að persónunum í lögunum okkar. Mér finnst þær samt áhugaverðar en við viljum auðvitað ekki hvetja til ofbeldis eða til þeirra hluta sem persónurnar gera enda eru þær bæði truflaðar og ógeðslegar,“ segir hann og hlær.

Sjálfur segist Webster vera ágætlega rólegur eins og hinir í hljómsveitinni. Hann er kvæntur og tveir til viðbótar eru fjölskyldufeður. „Við erum álíka rólegir og hver annar. Allir eiga sínar stundir þar sem þeir missa stjórn á skapi sínu en við erum bara ósköp venjulegir.“ Carrey var svalurÞátttaka Cannibal Corpse í gamanmyndinni Ace Ventura vakti mikla athygli á sínum tíma en Webster segist ekki hafa hitt Jim Carrey síðan þá. „Við hittum hann og vorum vinir hans í þá tvo daga sem við unnum við myndina en við höfum ekkki séð hann síðan þá. Hann var samt mjög svalur þessa tvo daga, en hann hefur verið frekar upptekinn síðan þá. Þannig að við höfum ekki haft tíma til að bjóða honum í grill eða eitthvað svoleiðis,“ segir hann og hlær. „En við vorum honum mjög þakklátir fyrir að stinga upp á að við kæmum fram í myndinni, það var eiginlega hans hugmynd.“ Enn til miðarFyrri tónleikar Cannibal Corpse verða 30. júní og þá hita upp Mínus og Changer. Þeir síðari verða kvöldið eftir fyrir alla aldurshópa og hita þá upp Forgarður Helvítis, Momentum og Severed Crotch. Enn eru til miðar á báða tónleikana.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.