Erlent

Japanskur þingmaður opnar skrifstofu í Second Life

Japanskur þingmaður varð nýverið sá fyrsti til þess að opna skrifstofu í sýndarveruleikanum Second Life. Þingmaðurinn, Kan Suzuki, freistar þess að ná endurkjöri á þing í kosningum sem fram fara í júlí. Sýndarveruleikinn Second Life hefur um sjö milljón skráða notendur.

Ýmis fyrirtæki hafa þegar komið sér þar fyrir í von um að fólk kaupi vörur sínar þar og síðan í raunveruleikanum. Suzuki ætlar að gera öðrum notendum leiksins kleift að spyrja spurninga um stefnu sína. Þá ætlar hann sér að halda fundi í sýndarveruleikanum til þess að kynna sig.

Andstæðingar hans hafa bent á að samkvæmt japönskum kosningalögum megi ekki nota vefsíður til þess að auglýsa eftir að kosningabaráttan er hafin. Aðrir segja þetta áhugaverða tilraun um það hvernig stjórnmál í raunveruleikanum eigi eftir að fara saman við sýndarveruleika og lífið þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×