Innlent

Þingflokkur VG styður tillögur Hafrannsóknarstofnunar

MYND/Vísir

Þingflokkur VG hefur sent frá sér ályktun um stöðu þorskstofnsins, vanda sjávarbyggða og heildarendurskoðunar sjávarútvegsstefnunnar. Þingflokkurinn telur skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand þorskstofnsins fela í sér mjög alvarlegar upplýsingar. Hann ályktar sem svo að hlíta verði ráðgjöf stofnunarinnar, fara að tillögum um samdrátt í veiðum og innleiða hina nýju aflareglu.

Í ályktuninni segir að pólitískum ákvörðunum um veiði úr þorskstofninum langt umfram ráðgjöf eins og viðgengist hefur um árabil verði að linna. Beita verði varúðarnálgun um veiðiálag þannig að takast megi að snúa núverandi þróun við og byggja hrygningarstofninn upp.

Mistekist hefur að vernda og byggja stofninn upp með núgildandi fiskveiðistjórn, verndunaraðgerðum og ákvörðunum um veiðiálag. Sú staðreynd og alvarlegar horfur um viðkomu þorskstofnsins næstu árin eru röksemdir fyrir því að endurmeta verði undirstöður og aðferðafræði á þessu sviði frá grunni. Í ályktuninni er bent á mikilvægi þess að innleiða vistvænar aðferðir og stuðla að sjálfbærri þróun í greininni.

Þingflokkurinn lýsir sig reiðubúinn til þverpólitísks samstarfs um heildarendurskoðun allrar aðferðafræði við fiskveiðistjórn og skipan sjávarútvegsmála

Bent er á að samhliða fyrirsjáanlegum samdrætti í veiðum og endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar sé óumflýjanlegt að grípa til markvissra hliðaraðgerða til að treysta undirstöður atvinnulífs og búsetu í sjávarbyggðunum. Margar eiga þegar í erfiðleikum og þurfa svo í framhaldinu að takast á við afleiðingar minni þorskveiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×