Erlent

Biður um meira svigrúm

Bush Bandaríkjaforseti bað þjóð sína um að gefa sér meiri tíma til að ná árangri í Írak í stefnuræðu sinni í gær. Stjórn hans ætlar að beita sér fyrir því að á næstu tíu árum dragi Bandaríkjamenn úr olíunotkun sinni um fimmtung.

Þótt þingheimur hafi fagnað George Bush í gær voru fagnaðarlætin mun lágstemmdari en undanfarin ár enda eru demókratar þar nú í meirihluta. Á stefnuræðu hans mátti líka greina að þar færi forseti sem skammt ætti eftir í embætti því fátt kom þar beinlínis á óvart. Það voru einna helst orkumálin sem vöktu athygli.

Í ræðunni kynnti Bush áætlun sem miðar að því að minnka olíunotkun um fimmtung á næstu tíu árum og leggja þeim mun meiri áherslu á þróun og framleiðslu nýrra orkugjafa, sérstaklega etanóls. Kvaðst forsetinn ætla að fara fram á 250 milljarða króna fjárveitingu frá þinginu næsta áratuginn til þessara mála. Þessi stefnubreyting er tæpast vegna áhuga repúblikana á umhverfismálum heldur ráða pólitískar aðstæður sjálfsagt hér mestu. Bandaríkin eru einhverjir mestu olíuinnflytjendur í heimi og megnið af þeirri olíu kemur frá Venesúela og Mið-Austurlöndum þar sem Bandaríkin eiga fáa vini.

Bush kom annars víða við í ræðunni, hann ræddi meðal annars málefni innflytjenda og endurbætur á heilbrigðiskerfi landisns. Írak var hins vegar sá einstaki þáttur sem stærstur hluti þessarar 53 mínútu löngu ræðu fjallaði um. Forsetinn útskýrði nýjar áherslur ríkisstjórnar sinnar í stríðsrekstrinum, meðal annars að senda aukaherlið til landsins, og bað þjóðina um að gefa sér tíma til að sýna fram á að þær myndu skila árangri. Þótt útlitið væri dökkt væri ennþá tími til að snúa taflinu sér í vil.

Skoðanakannanir benda hins vegar til að þolinmæði þjóðarinnar sé á þrotum, flestar benda þær til að Bush sé óvinsælasti forseti síðustu 50 ára, ef undan er skilinn Richard Nixon vikurnar fyrir afsögn sínaþ




Fleiri fréttir

Sjá meira


×